Íslenski boltinn

Davíð Þór: Við erum bara þannig lið að við gefumst ekki upp

Ívar Kristinn Jasonarson skrifar
Davíð Þór snéri aftur í dag eftir leikbann.
Davíð Þór snéri aftur í dag eftir leikbann. vísir/stefán
„Ég er mjög sáttur með þessi stig. Við þurftum að hafa mikið fyrir þeim á móti mjög góðu Grindavíkurliði,“ sagði fyrirliði FH-inga, Davíð Þór Viðarsson, eftir sigurleikinn gegn Grindavík í 12. umferð Pepsi-deildar karla í dag.

Davíð Þór sagði spilamennsku sinna manna ekki hafa verið nógu góða í dag.

„Mér fannst vanta smá ákefð og kraft. Í seinni hálfleik, þegar þeir skora 2-1, þá héldum við boltanum nánast ekki neitt sem á að vera okkar helsti styrkur. Við urðum of stressaðir og fórum að hugsa of  mikið um að verja forskotið. Það gerði það að verkum að við komumst varla fram yfir miðju síðustu tíu mínúturnar.“

Gengi FH-inga í vetur hefur ekki staðist væntingar og eru þeir eftir leikinn sex stigum á eftir toppliði Vals.

„Þetta var leikur sem við urðum að vinna til að missa þau lið sem eru efst ekki of langt á undan okkur. Við áttum okkur á því að stigafjöldinn eftir fyrri umferðina var ekki nógu mikill þannig við þurfum heldur betur að fara að hala inn stigum í seinni umferðinni.

„Við þurfum á því að halda að liðin á undan okkur misstígi sig. Þetta er ekki í okkar höndum. En það eru tíu leikir eftir og við erum bara þannig félag að við gefumst aldrei upp fyrr en það er tölfræðilega ómögulegt að ná titlinum.

„En við áttum okkur á þvi að ef við ætlum að eiga einhvern séns þá megum við varla misstíga okkur. Þó svo að við höfum unnið þennan leik þá þurfum við að koma aðeins betur stemmdir og öflugri inn í leikina sem við erum að spila,“ sagði Davíð Þór bjartsýnn á framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×