Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn liggur áfram undir feldi

Hjörvar Ólafsson skrifar
Heimir hefur enn ekkert gefið upp um hvort hann verður áfram með landsliðið.
Heimir hefur enn ekkert gefið upp um hvort hann verður áfram með landsliðið. Fréttablaðið/Eyþór
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kvaðst vilja taka sér eina til tvær vikur til þess að hugsa málin hvað varðar framtíð sína eftir að liðið tapaði fyrir Króatíu í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn í síðustu viku.

Samningur Heimis við Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, var til loka heimsmeistaramótsins og nú er spurning hvað gerist í þjálfaramálum liðsins í framhaldinu.

KSÍ er ekki búið að setja neinn tímaramma á ákvörðun Heimis að sögn Guðna Bergssonar, formanns KSÍ.

„Það er í raun fátt að frétta og staðan enn sú sama. Það er að við séum að gefa Heimi andrými til þess að hugsa málið og við erum að kortleggja stöðuna. Ég get ekki sagt meira á þessum tímapunkti. Við höfum ekki sett neinn tímaramma eða pressu, en þetta skýrist líklega á einhvern hátt í næstu viku,“ sagði Guðni þegar Fréttablaðið tók stöðuna á viðræðum við Heimi í gær.

Næsta verkefni íslenska liðsins er fyrsti leikur í Þjóðadeildinni sem er ný keppni sem evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur settur á laggirnar. Hefur Ísland leik gegn Sviss ytra þann 6. september næstkomandi en ásamt Sviss er Belgía með Íslandi í riðli.

Leiða má líkur að því að góður árangur íslenska landsliðsins undanfarin ár hafi vakið áhuga á kröftum Heimis og honum standi til boða fleiri verkefni en að halda áfram þjálfun íslenska liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×