Skoðun

Er hið smáa stærst?

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ég sá afar hjartnæma heimildarmynd í síðustu viku. Hreint hjarta heitir hún, og eins og með öll góð verk fékk hún mig til að brjóta heilann um lífsins leyndardóma.

Fór ég meðal annars að hugsa um heimþrána sem gerir stundum vart við sig þegar ég sé myndefni frá Íslandi. Ég komst hins vegar að því að það örlar síst á henni þegar ég sé einhverja stórviðburði, stjörnu­fans eða hátíðarhöld. Fjölmennt víkingaklapp, Júróvisjón gilli, kosningavaka og troðfullt sófasett af frægu fólki hjá Gísla Marteini, allt er þetta ósköp skemmtilegt en vekur engan veginn hjá mér heimþrá, söknuð eða frekari sannfæringu um ágæti lands og þjóðar.

Svo var ég að horfa á þessa dásamlegu mynd og heyri í hrossagauki, sé gamlan prest ösla snjó á myrkvuðum mánudegi, skafa af bíl sínum, tala við dauðvona vin sinn, bíða í öngum sínum eftir óstundvísum hringjara og þá fer gamla heimahjartað að slá ótt og títt og vitund mín veit allt í einu ekkert fegurra en lífið á Íslandi. Ég spyr eins og unglingarnir; hvað er þetta?

Er það þá þannig sem hugur og hjarta virka? Með öðrum orðum, er það hugsanlegt að þegar maður er kominn að grafarbakkanum og hugsar til baka að þá staldri maður síður við brúðkaupin, útskriftirnar, afrekin á ferlinum og húllumhæið eftir Englandsleikinn en hugsi af þeim mun meira hjartnæmi um það þegar maður lagaði kaffi á morgnana, átti viðtal við vini í vanda, heyrði fuglasöng í vornóttinni og alla þessa litlu hluti sem virðast svo yfirmáta hversdagslegir á meðan á þeim stendur?

Kannski er lífsfjörið þarna þó vissulega megi hafa gaman af því þegar kóngurinn má vera að því að klingja við mann.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×