Erlent

Framlengdu valdatíð forsetans

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Salva Kiir, forseti Suður-Súdan, er yfirleitt með hatt á höfði.
Salva Kiir, forseti Suður-Súdan, er yfirleitt með hatt á höfði. Vísir/Getty
Suðursúdanska þingið greiddi atkvæði með því í gær að lengja kjörtímabil Salva Kiir forseta og ýmissa annarra kjörinna embættismanna fram til árins 2021. Upphaflega átti að kjósa til forseta þann 9. júlí, í fyrsta sinn frá því að ríkið lýsti yfir sjálfstæði. Við þau áform var hins vegar hætt vegna meintrar valdaránstilraunar og átaka í Afríkuríkinu.

Þetta er raunar ekki í fyrsta skipti sem þingið framlengir valdatíð Kiirs. Þegar halda átti forsetakosningar í júní árið 2015 var valdatíð hans í staðinn framlengd um þrjú ár vegna þessarar sömu borgarastyrjaldar sem geisaði þá og geisar enn í Suður-Súdan.

Salva Kiir hefur verið forseti Suður-Súdan allt frá því að ríkið fékk sjálfstæði árið 2011. Fyrir þann tíma var hann bæði forseti héraðsstjórnar Suður-Súdan, á meðan landið tilheyrði Súdan enn, og fyrsti varaforseti Súdan. Hann hefur þó aldrei verið formlega kjörinn forseti hins unga lýðveldis.

Að sögn Pauls Youani Bonju, formanns upplýsingamálanefndar þingsins, er ákvörðunin til þess fallin að styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar í friðarviðræðum við uppreisnarmenn.

Uppreisnarmenn eru hins vegar ekki hrifnir, ef marka má frétt Reuters. „Við hörmum þessa ákvörðun þar sem hún sýnir fram á að ríkisstjórnin sé bara að spila einhverja leiki við samningaborðið. Alþjóðasamfélagið ætti ekki að viðurkenna þessa ákvörðun og ætti að lýsa því yfir að ríkisstjórnin sé samansett úr umboðslausum útlögum,“ sagði Mabior Garang de Mabior, talsmaður uppreisnarsamtakanna SPLM-IO, við miðilinn.

SPLM-IO eru uppreisnarsamtök sem voru mynduð eftir að Riek Machar var rekinn úr embætti varaforseta landsins eftir ósætti við Kiir árið 2013. Samtökin styðja Machar til áhrifa en eru ekki þau einu sem hafa barist gegn ríkisstjórninni í þessu tæplega fimm ára langa stríði.

Á milli 50.000 og 300.000 hafa farist í átökunum, ein og hálf milljón flúið land og rúmar tvær milljónir eru á vergangi innanlands. Þá hefur hungursneyð verið lýst yfir í Unity-héraði og staðan er víðast hvar erfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×