Ljósmæðrafélag Íslands samþykkti í dag miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu sinni við ríkið með 95 prósent atkvæða. Þátttakan var góð en 91 prósent þeirra sem eru á kjörskrá greiddu atkvæði. Þá samþykkti, Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, einnig tillöguna og nýr kjarasamningur því kominn á milli aðila.

„Í þessari lausn erum við í raun og veru að tala um, til viðbótar við miðlægan kjarasamning, að bæði við í heilbrigðisráðuneytinu, ég sem heilbrigðisráðherra og Landspítalinn horfumst í augu við það að það þarf að hnika til á stofnununum sjálfum og bæta kjaraumhverfið og endurmeta launasetningu. Þetta samstillta átak varð til þess að leysa málin að þessu sinni. Ríkissáttasemjari var sú sem sat við borðsendann og sá hvernig púslin myndu öll falla saman í eina heildarmynd,“ segir hún.
Svandís segir að vinna við lausnina hafi ekki verið einföld, en skilaði að lokum sáttum ljósmæðrum.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samningarnefndar ljósmæðra, hafði tilfinningu fyrir því að þetta yrði samþykkt, en bjóst ekki við svona afgerandi niðurstöðu.
„Næstu skref eru að fylgja eftir því sem hefur núna verið samþykkt. Þarf að fara í gang svokölluð þarfagreining á stofnunum til að koma inn þessum 60 milljónum sem koma frá Velferðarráðuneytinu. Koma þeim á þá staði þar sem þær eiga heima til þess að hægt sé að hækka ljósmæður inn í gegnum stofnanasamninga og fylgja eftir því sem hefur verið samið um. Svo bara bíðum við spenntar eftir niðurstöðu frá Gerðardómi, það er aðal málið,“ segir Katrín.