Íslenski boltinn

Fylkir selur sextán ára strák til Heerenveen

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá undirskriftinni.
Frá undirskriftinni. vísir/heimasíða Fylkis
Fylkir hefur selt Orra Hrafn Kjartansson til SC Heerenveen í Hollandi. Fylkir staðfesti þetta á heimasíðu sinni nú í dag.

Orri Hrafn skrifar undir þriggja ára samning við hollenska félagið en á dögunum gerði hann samning við Fylki. Hollenska félagið kaupir hann af Fylki.

Orri er fæddur árið 2002. Hann er uppalinn í Fylki og hefur spilað einn meistaraflokksleik. Það kom á afmælisdegi hans í Reykjavíkurmótinu, þann fimmta febrúar.

„Við óskum Orra góðs gengis og hlökkum til að fylgjast með honum og sjá hann aftur í ORANGE í framtíðinni,” segir í tilkynningu Fylkis.

Hann hefur spilað þrjá leiki fyrir U16-ára landslið Íslands og var valinn í hóp U16 sem spilar á Norðurlandamótinu í Færeyju frá þriðja til tólfta ágúst.

Orri er ekki fyrsti Íslendingurinn sem fer til hollenska félagsins. Alfreð Finnbogason spilaði þar í þrjú ár, Albert Guðmundsson einnig í þrjú og nú er Birkir Heimisson á mála hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×