Sport

Ólympíuverðlaunahafi stunginn til bana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Denis Ten með bronsið í Sochi.
Denis Ten með bronsið í Sochi. vísir/getty
Kasakstaninn Denis Ten, Ólympíuverðlaunahafi í listdansi á skautum, var stunginn til bana í gær, 25 ára að aldri. BBC greinir frá.

Ten, sem vann brons á vetrarólympíuleikunum í Sochi fyrir fjórum árum, var stunginn í Almaty í Kasakstan þegar að hann reyndi að koma í veg fyrir að tveir menn myndu stela baksýnisspeglunum á bílnum hans.

Þessi frábæri skautamaður, sem á auk ÓL-bronsins tvenn verðlaun frá HM, var fluttur á sjúkrahús en lést þar af sárum sínum þremur klukkustundum síðar.

Lögreglan í Almaty er búin að handtaka einn mann sem er grunaður um verknaðinn en leitað er að hinum.

Þrátt fyrir ungan aldur keppti Ten á sínum þriðju Ólympíuleikum í Pyeongchang fyrr á árinu en hann mætti fyrst til leiks í Vancouver árið 2010, aðeins 17 ára gamall.

„Ótrúleg afrek hans gerðu mikið fyrir land okkar og þjóð og gerðu íþróttina vinsælli á meðal ungs fólks. Denis var ekki bara frábær íþróttamaður heldur frábær persóna sem var stoltur af landi sínu. Hans verður saknað,“ sagði Nursultan Nazarbayev, forseti Kasakstan, í yfirlýsingu í morgun.

Frábær íþróttamaður er fallinn frá.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×