Forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar segir merki um að ferðamenn séu sparsamari en áður. Sterk króna eigi eflaust hlut að máli.
„Þróun á kortaveltu í dagvöruverslun og veitingaþjónustu fylgdist að framan af,“ útskýrir forstöðumaðurinn, Árni Sverrir Hafsteinsson. „En að undanförnu hefur veltan í dagvöruverslun aukist heldur meira. Við sjáum að ferðamenn eru farnir að haga sér meira líkt og hagsýnir neytendur. Hlutfall dagvöru í verslun þeirra hefur vaxið umtalsvert á meðan vöxturinn er minni í sölu á sérvörum og lúxusvarningi.“
Erlendir ferðamenn keyptu dagvöru fyrir tæplega 3,3 milljarða króna með greiðslukortum á fyrstu fimm mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra nam veltan 2,8 milljörðum.

Erlendir ferðamenn greiddu rúmlega 9,4 milljarða króna fyrir veitingaþjónustu á fyrstu fimm mánuðum ársins og 18,7 milljarða fyrir hótelgistingu. Velta þeirra í síðarnefnda útgjaldaliðnum jókst um ríflega 13 prósent á milli ára en til samanburðar var vöxturinn yfir 30 prósent milli áranna 2016 og 2017.
Erlend greiðslukortavelta nam í heild alls 87 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins og dróst saman um sjö prósent eða um 6,6 milljarða í krónum milli ára.
Árni Sverrir bendir þó á að samanburður á kortaveltutölum milli ára gefi skakka mynd af þróun mála þar sem stórt fyrirtæki í flugþjónustu hafi á síðasta ári flutt færsluhirðingu sína úr landi.
Vissulega sé vöxtur kortaveltunnar minni en áður en hann sé engu að síður ágætur. „Það má segja að við séum að halda sjó. Það er ekkert hrun í kortunum,“ nefnir hann.