Íslenski boltinn

Hvernig fóru Valsmenn ekki að því að skora í gær eða fór boltinn kannski inn fyrir línuna?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn standa hér svekktir eftir í leiknum í gær og spyrja sig: Hvernig fórum við að því að skora ekki úr þessu færi?
Valsmenn standa hér svekktir eftir í leiknum í gær og spyrja sig: Hvernig fórum við að því að skora ekki úr þessu færi? Vísir/Daníel
Valsmenn eru úr leik í Evrópudeildinni þrátt fyrir 2-1 sigur á móti Sheriff Tiraspol á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Íslandsmeistararnir áttu mjög góðan leik og unnu fyrir fleiri mörkum en þessum tveimur sem þeir skoruðu.

Leikar fóru samanlagt 2-2 en Sheriff Tiraspol fór áfram á fleiri mörkum skoruðu á útivelli.

Það var hins vegar alveg grátlegt fyrir Valsmenn að skora ekki fleiri mörk í leiknum því þeir fengu svo sannarlega færin til þess.

Valsmenn komust í 1-0 með marki fyrirliðans Hauks Páls Sigurðssonar og Valsstrákarnir fengu færi bæði á undan og á eftir til að bæta við fleiri mörkum áður en liðsmenn Sheriff Tiraspol jöfnuðu metin á 68. mínútu.

Valsmenn þurftu þá að skora tvö mörk en þeir gáfust ekki upp og komust aftur yfir með marki Kristins Inga Halldórssonar á 90. mínútu. Dramatíkin var síðan rosaleg á síðustu sekúndunum þegar Valsliðið fékk hvert færið á fætur öðrum.

Það er eiginlega alveg óskiljanlegt hvernig boltinn fór ekki inn fyrir línuna og sumir Valsmenn vildu meina að hann hafi gert það án þess að dómaratríóið tæki eftir því.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af bestu færum Valsmanna í leiknum og eftir að hafa horft á það þá er skiljanlegt að Valsmenn séu svekktir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×