Íslenski boltinn

FH-ingar kynna leikinn í kvöld með dramatísku myndbandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson
Davíð Þór Viðarsson Skjámynd/FHingar.net
FH-ingar eru ekki í felum þegar kemur að mikilvægi leiksins í kvöld á móti Stjörnunni í undanúrslitum Mjólkurbikars karla. Timabilið er undir hjá FH.

Í boði er sæti í bikarúrslitaleiknum og eini möguleiki FH til að vinna stóran titil þetta sumar. Stjörnumenn eru líka á fullu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en FH á ekki lengur raunhæfa möguleika á því að vinna titilinn.

Leikmenn og þjálfari FH, Ólafur Kristjánsson, kalla eftir stuðningi FH-inga í Garðabænum í kvöld í dramtísku myndbandi inn á FHingar.net fésbókarsíðunni.

FHingar.net kíktu á æfingu FH daginn fyrir leik og ræddu við Ólaf, fyrirliðann Davíð Þór Viðarsson og markahæsta leikmanninn í sögu félagsins í efstu deild, Atla Viðar Björnsson.

„Núna bara reynir á þetta félag. Þetta er klúbbur sem hefur alltaf sýnt samstöðu. Í gegnum öll þessi ár og í gegnum alla þessa velgengni þá hefur stuðningurinn verið gríðarlegur. Bæði í fyrra og í ár þá er bara ákveðinn mótbyr og það reynir á alla í félaginu,“ sagði Davíð Þór Viðarsson í myndbandinu.

„Stemmningin er geggjuð en við gerum okkur grein fyrir því að við erum í ákveðnu brasi. Við vitum sem höfum verið hérna lengi, eins og ég, Davíð og fleiri, hvað stuðningsmenn FH geta verið geggjaðir. Ég væri svakalega mikið til í að sjá smá sturlun í Garðabænum á morgun (í kvöld),“ sagði Atli Viðar Björnsson.

Leikur Stjörnunnar og FH hefst klukkan 19.15 og hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Það má sjá þetta skemmtilega myndband hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×