Erlent

Twitter setur samsæriskenningasmið í vikustraff

Kjartan Kjartansson skrifar
Alex Jones þarf að kveðja Twitter í bili. Hann hefur meðal annars staðhæft að bandarísk stjórnvöld hafi staðið að baki hryðjuverkunum 11. september árið 2001.
Alex Jones þarf að kveðja Twitter í bili. Hann hefur meðal annars staðhæft að bandarísk stjórnvöld hafi staðið að baki hryðjuverkunum 11. september árið 2001. Vísir/samsett

Stjórnendur samfélagsmiðilsins Twitter hafa bannað Alex Jones, alræmdum samsæriskenningasmiði, að deila efni á miðlinum í viku. Þeir greindu þó ekki frá því hvað það var sem Jones gerði til að vera bannaður. Twitter hafði verið gagnrýnt harðlega fyrir að fylgja ekki fordæmi annarra tæknifyrirtækja og gera Jones útlægan.



Jones rekur vefsíðuna Infowars þar sem hann hefur deilt vanstilltum samsæriskenningum undanfarin ár. Þar hefur hann til að mynda logið að aðdáendum sínum að fjöldamorðið í Sandy Hook-grunnskólanum í Bandaríkjunum árið 2012 hafi verið sett á svið með leikurum.



Samsæriskenningar Jones hafa meðal annars orðið til þess að foreldrar barna sem voru myrt í Sandy Hook hafa mátt þola níð á netinu og í persónu. Það varð meðal annars til þess að stór tæknifyrirtæki eins og Facebook, Google og Apple ákváðu að loka reikningum Jones og Infowars.



Jake Dorsey, forstjóri Twitter, vildi hins vegar ekki fylgja í fótspor fyrirtækjanna. Sagði hann að Jones hefði ekki brotið gegn skilmálum Twitter.



Breska ríkisútvarpið BBC segir að Twitter hafi ekki staðfest hvers vegna Jones hafi verið bannaður nú. New York Times hafi hins vegar greint frá því að Jones hafi deilt myndbandi þar sem hann hvatti aðdáendur sína til þess að gera „orrusturifflana“ sína tilbúna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×