Skoðun

Varnargarðar

Bjarnveig Eiríksdóttir skrifar
Evrópurétturinn flæðir óhindraður inn árósa og upp árnar, ekkert getur hindrað hann, svo vitnað sé til frægra ummæla enska dómarans Dennings lávarðar. Víst er það svo að Evrópureglurnar flæða inn í EES-samninginn. Þó er sá varnargarður fyrir hendi hér á landi að reglur EES-samningsins taka ekki gildi fyrr en þær hafa verið lögfestar.

Með EES-samningnum er komið á fjórfrelsi í viðskiptum með vöru og þjónustu, för launþega, sjálfstætt starfandi og fyrirtækja og afnámi hafta á fjármagnsflutninga. Margar EES-tilskipanir og reglugerðir heimila undanþágur frá fjórfrelsinu sem eiga að varna því að opnun markaða geti skaðað innlenda hagsmuni. Hagsmunir atvinnulífsins eru því best tryggðir með því að taka slíkar gerðir sem fyrst upp í EES-samninginn og innleiða án tafar. Hér skiptir máli að frá því að gerðirnar taka gildi í ESB, og jafnvel fyrr, ættu íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar að geta haft nægan tíma til að skoða ætluð áhrif. Það má spyrja um forgangsröðun en undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld ekki náð að lögfesta tilskipanir og reglugerðir tímanlega og eru neðst á frammistöðulista ESA þó staðan hafi batnað.

Það er mikilvægt að vanda til verka þegar settar eru reglur sem snerta vinnumarkaðinn og setja varnargarða þar sem það má. Í lok júní samþykkti Alþingi innleiðingarlög (nr. 75/2018) vegna nýrrar tilskipunar sem hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn. Það er nýmæli. Lögin breyta m.a. lögum um útsenda starfsmenn og starfsmannaleigur, bæta eftirlit og koma m.a. á keðjuábyrgð í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, þ.e. ábyrgð fyrirtækja er nota sér þjónustu erlendra fyrirtækja á vangoldnum lágmarkslaunum, launaþáttum og launatengdum gjöldum.

En góðri innleiðingu lýkur ekki á Alþingi. Tryggja þarf rétta beitingu EES-reglna. Hjá Þjóðskrá tíðkast að skrá einungis sem EES-launþega þá sem afla tiltekinnar lágmarksfjárhæðar launa eða ígildis hennar jafnvel þótt viðkomandi sé í hlutastarfi. Þannig geta atvinnurekendur ráðið „sjálfboðaliða“ sem jafnvel starfa á svörtum vinnumarkaði en er ekki skylt að skrá sig sem EES-launþega hjá Þjóðskrá. Vandséð er að framkvæmd Þjóðskrár standist ákvæði EES-samningsins því einstökum ríkjum er óheimilt að skilgreina einhliða hvað telst vera EES-launþegi. Hér er varnargarður á röngum stað og truflar samkeppni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×