Erlent

Innanríkisráðherrann lofar að menn verði dregnir til ábyrgðar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björgunarmenn leituðu í brakinu að eftirlifendum.
Björgunarmenn leituðu í brakinu að eftirlifendum. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA
Minnst 35 fórust þegar partur af brú hrundi norðvestur af ítölsku borginni Genóa í gær. Talið er að mannvirkið hafi látið undan miklu votviðri sem verið hefur á svæðinu síðustu daga. Innanríkisráðherra landsins hefur heitið því að þeir sem eru ábyrgir fyrir hruninu verði dregnir til ábyrgðar vegna þess.

Brúin var reist á sjöunda áratug síðustu aldar yfir Polcevera-ána og svæðið í kringum hana. Hún var tæplega 1,2 kílómetrar að lengd. Á henni hvíldi A10 hraðbrautin sem tengir meðal annars saman ítölsku Rívíeruna og suðurströnd Frakklands.

Um 200 metra stykki hrundi úr henni í gær og féllu bifreiðar og brak á lestarteina og byggingar sem standa undir brúnni. Óttast er að aðrir hlutar brúarinnar kunni að gefa eftir og hefur svæðið í kringum hana því verið rýmt.

„Ég hef farið yfir þessa brú í mörg hundruð skipti. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að finna eigin- og eftirnöfn þeirra yfirmanna sem voru ábyrgir fyrir brúnni, bæði í fortíð og nútíð, því það er óásættanlegt með öllu að fólk týni lífi með þessum hætti á Ítalíu,“ segir Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu.




Tengdar fréttir

Minnst 30 látnir í Genúa

Minnst 30 eru látnir eftir að langur kafli stórrar brúar í Genúa á Ítalíu hrundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×