Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair, keypti í morgun bréf í félaginu fyrir 100 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu um viðskipti fruminnherja til Kauphallar Íslands.
Félagið JÚ ehf., sem er í eigu Úlfars og eiginkonu hans, Jónu Óskar Pétursdóttur, er skráð fyrir kaupum bréfanna. Um er að ræða 12,24 milljónir hluta á genginu 8,17.
Sjá einnig: Björgólfur eykur hlut sinn í Icelandair
Hlutabréf í Icelandair féllu um 10 prósent í kjölfar uppgjörs félagsins á öðrum ársfjórðungi sem birt var í lok júlí. Margir stjórnendur Icelandair hafa síðan keypt hlutabréf í félaginu, þar á meðal Björgólfur Jóhannsson forstjóri, Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarmaður, og Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsviðs.
Úlfar hefur setið í stjórn Icelandair Group frá árinu 2010. Hann er forstjóri Toyota á Íslandi.
