Erlent

Omarosa segir Trump vera rasista

Samúel Karl Ólason skrifar
Omarosa og Trump þegar allt lék í lyndi.
Omarosa og Trump þegar allt lék í lyndi. Vísir/Getty
Omarosa Manigault Newman, fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins og þar áður keppandi í raunveruleikasjónvarpsþáttum Trump, segir forsetann vera rasista. Hún segir enn fremur að hann hafi ítrekað notað „N-orðið“ við tökur Apprentice þáttanna og það sé til á upptökum. Þetta skrifar Omarosa í nýrri bók sem ber heitið „Unhinged“ eða „Ruglaður“.

Hún skrifar sömuleiðis að hún hafi heyrt Trump tala með rasískum hætti um George Conway, eiginmanna Kellyanne Conway, sem er af filippseyskum ættum.

Omarosa gefur einnig í skyn í bók sinni að hugarástand Trump sé óstöðugt og hann hafi enga stjórn á sér.

Þetta kemur fram í frétt Guardian sem hefur komið höndum yfir eintak af bókinni sem kemur út í næstu viku.



Gagnrýnendur Omarosa segja hana í hefndarhug gagnvart Trump eftir að hún var rekin frá Hvíta húsinu í fyrra en starfaði sem yfirmaður samskiptasviðs Hvíta hússins og var einn af dyggustu stuðningsmönnum Trump.

Sarah Sanders, talskona Trump, sendi í kvöld frá sér tilkynningu þar sem hún segir Omarosa vera að ljúga. Hún sé reið yfir því að hafa verið rekin og hún sé að reyna að græða peninga með fölskum árásum. Þá skammaðist Sanders út í fjölmiðla fyrir að taka mark á henni.

Blaðamaðurinn Josh Dawsay sagði frá því á Twitter í kvöld að einn starfsmaður Hvíta hússins spurði hann hvernig í ósköpunum hann gæti tekið Omarosa alvarlega.

Hann spurði á móti af hverju Omarosa hefði þénað 180 þúsund dali á ári, verið með einn æðsta titil ríkisstjórnarinnar, mætt á fundi hæstsettu starfsmanna Hvíta hússins og haft aðgang að skrifstofu forsetans.

Omarosa skrifar einnig í bók sinni að framboð Trump hefði boðið henni fimmtán þúsund dali á mánuði svo hún myndi þaga um reynslu sína í Hvíta húsinu. Það samsvarar árslaunum hennar þegar hún starfaði í Hvíta húsinu.

Blaðamenn Washington Post hafa séð samningsdrög sem Omarosa barst frá tengdadóttur Trump, sem starfar innan framboðs forsetans. Þar kemur fram að hún hefði ekkert mátt tjá sig um Trump, Mike Pence, varaforseta, né fjölskyldur þeirra. Þá mætti hún heldur ekki segja neitt sem kæmi niður á Trump.



Trump mun margsinnis hafa notað slíka samninga til að þagga niður í gagnrýnendum sínum og fólki sem hafa sakað hann um óboðlegt framferði. Þar á meðal er klámmyndaleikkonan Stormy Daniels.

Omarosa hefur ekki birt neinar sannanir fyrir ásökunum sínum. Hins vegar segist hún hafa tekið upp fjölda samtala í Hvíta húsinu og blaðamenn Washington Post hafa hlustað á nokkrar slíkar. Þeir segja þær í samræmi við tilvitnanir í bókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×