Erlent

Hútar fagna ákalli um óháða rannsókn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jemenar virða fyrir sér rútuna sem eyðilagðist. Um fjörutíu börn eru sögð hafa farist í árásinni.
Jemenar virða fyrir sér rútuna sem eyðilagðist. Um fjörutíu börn eru sögð hafa farist í árásinni. Vísir/EPA
Jemen Hútar, uppreisnarsamtökin sem berjast gegn hernaðarbandalagi undir stjórn Sádi-Araba og ríkisstjórn Abdrabbuhs Mansurs Hadi forseta í Jemen, fögnuðu í gær ákalli Sameinuðu þjóðanna um að rannsaka skuli sérstaklega loftárásir hernaðarbandalagsins sem urðu tugum að bana á fimmtudag.

António Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, fordæmdi árásina á fimmtudaginn og kallaði eftir óháðri rannsókn hið fyrsta. Í yfirlýsingu frá Farhan Haq, upplýsingafulltrúa Guterres, kom fram að meirihluti fórnarlamba hafi verið börn á milli tíu og þrettán ára gömul. Framkvæmdastjórinn kallaði jafnframt eftir því að alþjóðalög séu virt og að fyllsta aðgát sé höfð þegar árásir eru gerðar.

„Við fögnum ákalli framkvæmdastjórans og erum tilbúin til samvinnu,“ sagði Mohammed Ali al-Houthi, leiðtogi byltingarráðs Húta, á Twitter.  

Loftárásir Sádi-Araba í Jemen eru ekki nýjar af nálinni en þessi hörðu viðbrögð eru til komin þar sem rúta, sem flutti börn á leið á sumarnámskeið, varð fyrir skothríðinni. Tugir barna fórust og særðust. Í kjölfarið sögðu Sádi-Arabar árásina hafa verið fullkomlega lögmæta og sögðu Húta skýla sér á bak við börn.

Sádi-Arabar sögðust í gær þó ætla að rannsaka málið sjálfir. Ríkismiðillinn SPA hafði eftir embættismanni að hernaðarbandalagið myndi rannsaka allar ásakanir um mistök og brot á alþjóðalögum svo að hægt verði að refsa þeim sem ollu umræddum skaða.

Í gær sagði svo Henrietta Fore, framkvæmdastjóri Barnahjálpar SÞ (UNICEF), að árásirnar mörkuðu svartasta daginn í stríðinu. „En spurningin nú er sú hvort atburðurinn marki einnig vendipunkt. Hvort þetta augnablik sé til þess fallið að þrýsta á stríðandi fylkingar, öryggisráðið og alþjóðasamfélagið að gera hið rétta í stöðunni og binda enda á átökin,“ sagði Fore enn fremur.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×