Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Nóg af leikjum eftir

Árni Jóhannsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. vísir/ernir
„Þetta var frábær leikur milli frábærra liða en við vorum kannski klaufar að nýta ekki betur færin sem við fengum í byrjun leiks“, sagði þjálfari Stjörnunar eftir að hans menn og Valur skildu jöfn eftir stórleik tímabilsins á Samsung vellinum fyrr í kvöld.

„Svo skora þeir þetta mark úr sinni fyrstu sókn en fengu ekki mörg færi. Það er kannski niðurstaðan að við erum klaufar að nýta ekki möguleikana sem við fengum, vorum að missa boltann frá okkur í kjörstöðum en þetta er bara svona. Eitt stig á móti svakalegu liði og þetta heldur lífi í þessu“.

Leikurinn var mjög ákaflega leikinn og augljóst að það var mikið undir en bæði lið náðu lítið að skapa sér af færum og voru oft á tíðum klaufar með boltann.

„Það er nú yfirleitt milli þessara liða enda mikið í húfi og menn seldu sig dýrt til að ná fram úrslitum og ná betri úrslitum. Við verðum bara að una þessu“.

Rúnar var að lokum spurður út í það hvernig framhaldið yrði en mótinu er langt í frá að vera lokið.

„Staðan er bara svo sama, það eru allir jafnir eftir jafnmarga leiki. Valur er með þriggja stiga forystu en það er nóg af leikjum eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×