Handbolti

„Miklu betra lið en Króatía“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ásgeir Örn er áhyggjufullur fyrir leik dagsins.
Ásgeir Örn er áhyggjufullur fyrir leik dagsins.

„Við erum að tala um miklu betra lið en Króatía er með“ sagði fyrrum landsliðsmaðurinn Ásgeir Örn Hallgrímsson í Besta sætinu þegar hann var spurður út í Svíþjóð, andstæðing Íslands á EM í dag.

Ísland verður að vinna Svíþjóð til að halda vonum sínum um undanúrslit á lífi en ljóst er að verkefnið verður erfitt. 

„Þeir eru með tvo frábæra markmenn, Andreas Palicka og Mikael Appelgren.

Eric Johansson er þarna í skyttunni, svona skytta af gamla skólanum, hann er ekki af þessum nýja skóla sem hnoðast alveg endalaust. Hann er með rosa stökkkraft og skýtur alveg hrikalega fast

Felix Claar er á miðjunni, hann spilar með Ómari Inga og Gísla Þorgeiri í Magdeburg. Það er töframaður með boltann, lítill, grannur og snöggur leikmaður. Virkilega góður...

...Svo eru þeir með tvær hægri skyttur þarna, Albin Lagergren og Lukas Sandell. Það er eiginlega enginn áberandi veikleiki í þeirra liði“ hélt Ásgeir áfram og taldi upp helstu hætturnar hjá Svíum, en sagði svo tækifæri vera fyrir Ísland sóknarlega.

„Þeir spila þétta 6-0 vörn, sem er betra fyrir okkur ef við ætlum alltaf að brjótast í gegnum þá.“

Vill teikna allt upp á nýtt í vörninni

Jóhann Gunnar Einarsson benti þá á að sóknarleikur Íslands hefði ekki verið vandamál hingað til, heldur þurfi vörnin að standa sig betur. Hann var með ýmsar hugmyndir um hvernig það gæti verið gert og myndi jafnvel gerast svo djarfur að hleypa Svíþjóð bara í dauðafæri.

„Ég held að það þurfi bara að teikna allt upp á nýtt í vörninni. Finna einhverjar lausnir og jafnvel bara leggja planið þannig upp, að við fáum ekki skot á okkur fyrir utan [eins og varð Íslandi að falli gegn Króatíu.] Það er spurning, að fá bara ekki skot á okkur fyrir utan og gefa þá frekar sex metra færi, því Viktor Gísli er góður í að taka þessi dauðafæri.“

Besta sætið má finna í spilurunum að ofan en umræðan um Svíþjóð er undir lok þáttarins. 

Leikur Svíþjóðar og Íslands hefst klukkan 17:00 í dag og verður í beinni textalýsingu á Vísi, ásamt einkunnagjöf, tölfræðiskýrslu, myndasyrpu og annarri umfjöllun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×