Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) hefur vísað frá kæru sem varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir Unalæk á Völlum. Ástæðan er sú að auglýsing um deiliskipulagið hefur ekki verið birt.
Kæra barst nefndinni fyrir rúmu ári. Breytingin varðar tvær lóðir sem áður voru eyrnamerktar frístundabyggð. Breytingin fól í sér að þess í stað væri heimilt að starfrækja þar ferðaþjónustu og sölu á gistingu.
Tillagan fór í grenndarkynningu og var afgreidd að henni lokinni eða í apríl 2017. Tveir aðilar kærðu breytinguna þar sem verulegt ónæði yrði af gistiþjónustunni og að breytingin færi á svig við réttmætar væntingar þeirra að um frístundabyggð yrði að ræða.
Í niðurstöðu ÚUA segir að auglýsing um breytinguna hafi ekki verið birt. Þar sem birtingin hefur ekki farið fram innan árs telst breytingin sjálfkrafa ógild. Málinu var því vísað frá.

