Trump sagði leitarorðin „Trump News“ nánast eingöngu skila niðurstöðum frá fjölmiðlum sem hann segir vera vinstri sinnaða.
„Þeir stjórna því sem við getum og getum ekki séð. Þetta er mjög alvarlegt ástand sem verður tekið á,“ skrifaði Trump í tveimur tístum sem hann eyddi vegna stafsetningarvillu og birti svo aftur. Tístin voru upprunalega birt fyrir klukkan sex að morgni í Washington DC.
Talsmenn tæknifyrirtækisins þvertóku fyrir að stjórnmál hefðu áhrif á niðurstöður leitarvélar Google á nokkurn hátt. Í tilkynningu segir að eina markmið leitarvélarinnar sé að skila bestu niðurstöðunum á nokkrum sekúndum.
....results on “Trump News” are from National Left-Wing Media, very dangerous. Google & others are suppressing voices of Conservatives and hiding information and news that is good. They are controlling what we can & cannot see. This is a very serious situation-will be addressed!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 28, 2018
Virði hlutabréfa Alphabet, móðurfélags Google, féll um 0,6 prósent í kjölfar tísta forsetans.
Samkvæmt Politico virðist sem að tíst Trump byggi á umdeildri grein á síðunni PJ Media. Fjallað var um greinina á Fox News í gærkvöldi. Ritstjóri PJ Media viðurkenndi í dag að rannsókn hennar væri ekki vísindaleg. Hún hefði skrifað Trump í fréttahluta leitarvélar Google í tveimur tölvum og hún hefði notast við mismunandi aðganga að Chrome.
Blaðamaður Washington Post bendir á að nokkrum mínutum eftir fyrri tíst Trump í dag googlaði hann „Trump News“ og efsta niðurstaðan var frá Fox News og grein PJ Media var meðal efstu niðurstaða.