Fótbolti

Heimta frímiða á leikinn gegn Þýskalandi því um kvennaleik er að ræða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar komast á HM með sigri á Þýskalandi.
Stelpurnar komast á HM með sigri á Þýskalandi. Vísir/Andri Marinó
Knattspyrnusamband Íslands hefur fengið fyrirspurnir um frímiða á stórleik stelpnanna okkar gegn Þýskalandi á laugardaginn en sumir telja sig ekki eiga að borga inn á leikinn því um kvennaleik er að ræða, að sögn Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ.

Allt stefnir í að uppselt verði á leikinn en selt er í númeruð sæti í fyrsta sinn. Klara sagði í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hún reiknaði með að ekki væru nema um 1.600 miðar eftir.

„Miðað við hreyfingu á miðum, góða veðurspá og vaxandi fjölmiðlaumfjöllun teljum við líklegt að það verði uppselt. Þetta hefur lengi verið markmiðið okkar,“ segir Klara.

Hún bætir við að ekki eru margir boðsmiðar í boði á þennan leik né aðra A-landsleiki. Bakhjörlum sambandsins eru seldir miðar fyrir fram en boðsmiðar fara til dæmis stjórnarmanna, starfsmanna og leikmanna.

Hart er þó sóst eftir því að fá ókeypis á leikinn en ekki eru allir á því að það eigi að þurfa að borga sig inn á kvennalandsleiki.

„Það verður að segjast eins og er að fólk sækist frekar í frímiða af því að þetta er kvennaleikur og ætlast til þess að fá frímiða,“ segir Klara.

„Við fáum mikið um beiðnum af afslætti eða miða á barnaverði. Fólk telur sig ekki eiga að borga sig inn á þennan leik vegna þess að um kvennaleik er að ræða. Við erum algjörlega ósammála því.“

„Það er þannig hjá sumum en ekki öllum, sem betur fer. Það eru enn þá til nokkrir geirfuglar sem að hugsa þannig,“ segir Klara Bjartmarz.


Tengdar fréttir

„Ekki bara þeirra draumur, heldur okkar allra“

Ein stærsta goðsögnin í íslenskum kvennafótbolta frá upphafi bendir formanni KSÍ í góðu á eina staðreynd varðandi markmiðið að fylla Laugardalsvöllinn í hinum gríðarlega mikilvæga leik á móti Þýskalandi á laugardaginn kemur.

Við getum unnið Þýskaland

Sigríður Lára Garðarsdóttir lék fyrsta leik sinn fyrir norsku meistarana í Lilleström í gær. Henni stóð til boða að semja við þrjú lið í Skandinavíu og bíður hún óþreyjufull eftir leiknum gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×