Sport

Óþekkt 23 ára stelpa ein af tekjuhæstu íþróttakonum heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pusarla Venkata Sindhu.
Pusarla Venkata Sindhu. Vísir/Getty
Tenniskonur eru mjög áberandi á listanum yfir tekjuhæstu íþróttakonur heims og engin vann sér inn meiri pening en bandaríska tenniskonan Serena Williams.

Margir hafa hins vegar klórað sér í höfðinu yfir nafninu Pusarla Venkata Sindhu, íþróttakonunni sem þénaði meira en Charlotte Kalla, Lindsey Vonn og Sarah Sjöström á síðasta ári.

Forbes tók saman lista yfir þær íþróttakonur sem unnu sér inn mestan pening á síðasta og að sjálfsögðu eru heimsþekktar íþróttakonur þar í aðalhlutverki. CNN segir frá.

Tenniskonan Serena Williams er efst á listanum. Hún fékk reyndar aðeins 62 þúsund dollara í verðlaunafé þar sem hún var í barnseignafríi en á móti komu inn 18,1 milljón dollarar vegna auglýsinga- og styrktarsamninga. 18,1 milljón dollara eru tæpir tveir milljarðar í íslenskum krónum.

Efstu tíu konurnar á listanum þénuðu samtals 105 milljónir dollara frá júní 2017 til júní 2018. Það er fjögur prósent lægra en í fyrra og 28 prósent lægra en frá því fyrir fimm árum. Tíu efstu karlarnir þéunuðu samtals tíu sinnum meira en efstu tíu konuranr.

Tenniskonur eru í sex hæstu sætunum og þær eru einnig alls átta inn á topp tíu listanum. Kappaksturskonan Danica Patrick kemst inn á listann og svo sú sem er í sjöunda sætinu.





Badminton-konan Pusarla Venkata Sindhu frá Indlandi vann sér nefnilega inn 8,5 milljónir dollara á síðasta ári eða 921 milljón í íslenskum krónum.

Það þykir mönnum magnað afrek hjá 23 ára íþróttakonu sem fæstir hafa heyrt um. Hún keppir líka í badminton sem er nú ekki oft á lista yfir þær íþróttagreinar sem gefa af sér mestar tekjur.

Hún fæddist í júlí 1995, varð fyrsta indverska konan til að vinna silfurverðlaun á Ólympíuleikum og er aðeins annar af tveimur indverskum badminton-spilurum til að vinna verðlaun á Ólympíuleikum. Sindhu varð önnur á leikunum í Ríó 2016.





Vinsældir hennar í Indlandi eru að skila henni þessum gríðarlegu tekjum en hún hefur ennfremur komið íþróttagrein sinni upp í hæstu hæðir í landinu með sinni frammistöðu. Stór hlut tekna hennar koma í gegnum auglýsinga- og styrktarsamninga í heimalandinu.

Sindhu vann silfur á síðustu tveimur heimsmeistaramótum (2017 og 2018) en gullið lætur enn bíða eftir sér á stórmótum. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hún safnar að sér gulli í bankanum.

Tekjuhæstu íþróttakonurnar á síðasta ári:

1. Serena Williams (tennis) -- 18,1 milljón dollara

2. Caroline Wozniacki (tennis) -- 13 milljónir dollara

3. Sloane Stephens (tennis) -- 11,2 milljónir dollara

4. Garbine Muguruza (tennis) -- 11 milljónir dollara

5. Maria Sharapova (tennis) -- 10,5 milljónir dollara

6. Venus Williams (tennis) -- 10,2 milljónir dollara

7. Pusarla Venkata Sindhu (badminton) -- 8,5 milljónir dollara

8. Simona Halep (tennis) -- 7,7 milljónir dollara

9. Danica Patrick (kappakstur) -- 7,5 milljónir dollara

10. Angelique Kerber (tennis) -- 7 milljónir dollara






Fleiri fréttir

Sjá meira


×