Erlent

Flóðin í Kerala-héraði í rénun

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Sjálfboðaliðar dreifa matvælum á flóðasvæðunum í gær.
Sjálfboðaliðar dreifa matvælum á flóðasvæðunum í gær. NORDICPHOTS/GETTY
Flóðin í Kerala-héraði á Indlandi eru í rénun. Búist er við að það dragi úr rigningu á næstu dögum og vinna björgunaraðilar nú hörðum höndum að því að bjarga þúsundum sem enn eru fastir á flóðasvæðunum.

Tilkynnt hefur verið um að þrjátíu og þrír hafi týnt lífi á laugardaginn og minnst þrettán í gær. Alls hafa meira en 370 látist af völdum flóða frá því að monsún-tímabilið hófst í maí, langflestir síðustu daga.

Flóðin í héraðinu er þau verstu í heila öld en viðbúnaðarstigið var lækkað í gær og er ekki lengur á hæsta stigi. Indverski herinn segir í tilkynningu að hann hafi bjargað rúmlega 23 þúsund manns á síðustu dögum og að um tvö þúsund þeirra hafi þurft á læknismeðferð að halda.

Ekki er vitað hversu miklar skemmdir hafa orðið af völdum flóðanna en það verður ekki ljóst fyrr en vatnsyfirborðið hefur lækkað enn frekar. Að sögn ráðamanna er þó talið að rúmlega 80 þúsund kílómetrar af vegum þarfnist lagfæringar í kjölfar flóðanna.

Þá hafa um 20 þúsund heimili og stór ræktarlönd eyðilagst. Um fjögur þúsund hjálparmiðstöðvar hafa verið settar upp víðs vegar um héraðið. Nú verður lögð áhersla á að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma sem geta borist með vatni. 


Tengdar fréttir

Verstu flóð í 100 ár

324 hafa látið lífið í flóðum í Kerala héraði á Indlandi. Flóðin eru þau verstu í 100 ár

Mestu flóð í sögu Kerala-héraðs

Minnst 324 eru látnir og yfir 220 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir gríðarleg flóð í indverska héraðinu Kerala. Þetta eru mestu flóð á svæðinu frá upphafi mælinga.

Minnst 164 látnir vegna flóða í Indlandi

Flóðin má rekja til gífurlegrar rigningar en ástandið hefur ekki verið svo slæmt í Kerala í áratugi og enn er frekari rigningu spáð á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×