Innlent

Lífeyrissjóðirnir fjárfesti í grænum og sjálfbærum kostum

Kjartan Kjartansson skrifar
Olíuvinnslu á Drekasvæðinu hefur verið mótmælt í fyrri loftslagsgöngum í Reykjavík. Hún virðist þó út úr myndinni eins og er.
Olíuvinnslu á Drekasvæðinu hefur verið mótmælt í fyrri loftslagsgöngum í Reykjavík. Hún virðist þó út úr myndinni eins og er. Vísir

Fénu sem Íslendingar leggja í lífeyrissjóði ætti að verja í að styðja græn viðskipti. Þetta segir Gró Einarsdóttir, ein af skipuleggjendum Loftslagsgöngunnar, sem telur að hluti af fjárfestingum lífeyrissjóða ætti að vera sjálfbær. Gangan verður farin í þriðja sinn á laugardag.



Markmið Loftslagsgöngunnar er að krefjast tafarlausra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Þema göngunnar í ár er baráttugleði. Gró, sem er doktor í félags- og umhverfissálfræði, segir að full ástæða sé fyrir baráttu nú um mundir og vísar hún til hitameta sem slegin hafa verið víða um norðurhvel jarðar í sumar.



„Baráttugleðin kemur líka svolítið út af því að það eru ofboðslega margir sem finna fyrir vonleysi eða finnst vera of mikið aðgerðaleysi. Við viljum með þessari göngu sýna fram á að það er samstaða um þessi málefni, að það er stuðningur við aðgerðir og að maður þurfi ekki að vera einn í baráttunni,“ segir Gró.



Gangan sé þó ekki pólitísk. Markmiðið sé að þeir sem gangi séu sameinaðir gegn því sem Gró kallar „loftslagsröskun“.



„Mér finnst „breytingar“ hljóma eins og þetta sé eitthvað sem er eðlilegt. Það sem er að gerast í loftslaginu er röskun,“ segir Gró.



Meðalhiti jarðar hefur hækkað um eina gráðu á selsíus frá tímabilinu fyrir iðnbyltingu. Loftslagsvísindamenn segja að menn beri ábyrgð á 100% eða meira af þeirri hlýnun með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi.

Stjórnvöld gangi fram með góðu fordæmi

Kröfur Loftslagsgöngunnar eru margþættar, til að mynda að gripið verði til aðgerða til þess að endurheimta votlendi. Gró segir að meginkrafan sé sú að stjórnvöld standi fyrir árangursríkum aðgerðum.



„Okkur finnst mikilvægt að það séu stjórnvöld sem greiða götuna í þessum málum og sýni gott fordæmi og hjálpi bæði einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum að vinna í þessum málum,“ segir hún.



Sjálf leggur Gró persónulega áherslu á að peningar sem fólk leggur í lífeyrissjóðina, sem séu stærstu fjárfestar landsins, sé varið til að styðja við græn viðskipti og að hluti fjárfestinga sjóðanna verði sjálfbær. Þær fjárfestingar þurfi ekki að skila verri ávöxtun en aðrar en að þær gangi fram hjá jarðefnaeldsneytisiðnaðinum.



„Mín uppáhaldskrafa er að hugsa um að þetta eru okkar peningar og þetta er líka okkar framtíð. Þá er mjög mikilvægt hvernig við ætlum að fjárfesta þessa peninga“.

 

Gró Einarsdóttir er ein af skipuleggjendum Loftslagsgöngunnar í ár.Salbjörg Rita Jónsdóttir

Ísland ekki nýtt tækifæri sín til aðgerða nægilega vel

Íslensk stjórnvöld hafa verið sökuð um að draga lappirnar í loftslagsmálum. Allt stefnir í að Ísland standist ekki skuldbindingar sínar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á öðru tímabili Kýótóbókunarinnar. Umhverfisstofnun sagði frá því í fyrra að líklega þyrfti að kaupa losunarheimildir fyrir um 3,6 milljónir tonna af koltvísýringsígildum fyrir tímabilið.



Þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til er lýst í nýlegu svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra, við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Flokks fólksins. Auk eldsneytisgjalda nefndi ráðherrann kolefnisgjald, þátttöku í evrópsku viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir stóriðju og flug, ívilnanir til rafbíla, styrki til uppbyggingar rafhleðslustöðva, verkefni sem stuðla að minni matarsóun og kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu.



Til stóð að lokið yrði við nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir síðustu áramót en sú sem nú er í gildi er orðin átta ára gömul. Hún frestaðist hins vegar vegna ríkisstjórnarskipta síðasta haust. Samkvæmt heimildum Vísis hyggst ríkisstjórnin kynna áætlunina nú í byrjun hausts.



Gró segir að Ísland hafi ekki nýtt tækifæri sín til að fara í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Möguleikarnir hér séu miklir, meðal annars vegna greiðs aðgengis að hreinni orku.



„Ég held að það eigi bara að vera yfirlýst markmið Íslendinga og stjórnvalda að við ætlum að vera best í heimi í þessu. Við höfum verið að standa okkur ótrúlega vel í jafnréttismálunum og veitt öðrum innblástur með okkar starfi. Ég held að Ísland geti orðið þannig en við erum það svo sannarlega ekki núna. Það vantar alltof mikið upp á á mörgum stöðum,“ segir hún.



Sérstaklega segir Gró að Íslendingar standi sig illa þegar kemur að samgöngumálum.



„Þar vil ég sjá mikið átak, bæði betri orkugjafa í hvernig við ferðumst en líka meiri og betri almenningssamgöngur,“ segir hún.



Loftslagsgangan verður gengin frá Hallgrímskirkju klukkan 14:00 á morgun, laugardaginn 8. september, og endar á baráttufundi á Lækjartorgi.


Tengdar fréttir

Mesti hiti í 262 ár

Á meðan við hér uppi á Íslandi kvörtum yfir kulda og votviðri fárast frændur okkar í Svíþjóð yfir hita og rigningarleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×