Skoðun

Klimatångest

Óttar Guðmundsson skrifar
Íslendingar hafa alltaf verið uppteknir af veðrinu. Þjóðtrúin hefur að geyma ótal fyrirboða varðandi veðurfarið. Mikil berjaspretta var talin fyrir vondum vetri. Ótal orðtök og málshættir tengjast hversu ófyrirsjáanlegt veðrið er. Veðurfarið er sígilt samræðuefni í öllum heitum og köldum pottum þessa lands. Góðir veðurspámenn hafa alltaf verið í miklum metum. Gott þótti að heita á heilagan Þorlák til veðurs vegna þess að „hann lastaði aldrei veður“. Reykvíkingar hafa vælt stöðugt í allt sumar yfir vætutíð sem ekki er í anda hins forna biskups.

Meðan rigndi alla daga á Íslandi skein sólin glatt á frændur okkar Svía. Framan af voru menn kátir með alla þessa sól en smám saman kárnaði gamanið. Gróður eyddist, vatn þraut og miklir eldar loguðu í skraufþurrum skógunum. Sólríkt sumar snerist upp í martröð. Um fátt er meira rætt í Svíþjóð þessa dagana en þessa hitasvækju sumarsins. Nýr geðsjúkdómur er kominn fram, „klimatångest“ eða loftslagskvíði sem er gjörólíkur veðuráhyggjum Íslendinga. Menn óttast að veðurfar heimsins sé að breytast og veröldin smám saman að tortíma sjálfri sér. Hjá mörgum verður þetta að alvarlegri þráhyggju sem rænir fólk gleði daganna. Enginn talar lengur um veðursældina í Svíþjóð heldur um dapra framtíð og hitnun jarðar.

Umhverfissinnar sópa að sér pólitísku fylgi með hræðsluáróðri og „heimur á helvegi“ spám. Menn óttast um grunnvatnið og aðrar gjafir jarðar. Íslendingar láta sér þó fátt um finnast enda er hér enginn maður haldinn „klimat­ångest“. Meðan landinn þráir sól og sumaryl steyta sænskir bændur hnefann til himins framan í sólina. Svona er nú heimsins gæðum misskipt.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×