Snjókoma, slydda, hvassviðri og almennt leiðindaveður eru í kortunum fyrir vikuna. Á miðvikudag gengur veðrið í norðan 15 til 23 metra á sekúndu, hvassast austast. Gera má ráð fyrir að úrkoman sem fylgir veðrinu falli í formi slyddu eða snjókomu til fjalla. Seinnipart miðvikudagsins kólnar og það getur snjóað neðar.
Gul stormviðvörun er í gildi fyrir allt landið á miðvikudag og fimmtudag. Vetraraðstæður geta skapast á vegum með tilheyrandi samgöngutruflunum. Veðurstofa hvetur bændur til að huga að skjóli fyrir búfénað.
Á sunnanverðu landinu verða ekki sömu lætin, þar sem engri úrkomu er spáð. „En þar geta snarpir vindstrengir verið varasamir fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og lausamunir geta fokið.“
