Yfirvöld Filippseyja vinna nú hörðum höndum að því að taka saman dauðsföll og skemmdir í kjölfar fellibylsins Mangkhut sem fór þar yfir fyrr um helgina. Minnst 25 dóu vegna fellibylsins en enn hefur ekkert samband þó náðst við afskekkt samfélög á svæðinu vegna skemmda á vegum og innviðum.
Þó er sömuleiðis óttast að stór hluti uppskerunnar í Cagayan-héraði hafi tapast en héraðið er helsta landbúnaðarhérað landsins. Áætlað er að einungis fimmtungi uppskerunnar á svæðinu hafi verið safnað áður en Mangkhut skall á.
Embættismenn segja nánast öll dauðsföllin hafa orðið vegna aurskriðna. Svæðið sem varð hvað mest úti er, eins og áður segir, mikið landbúnaðarhérað og er það einnig mjög fjalllent. Þá hefur skógarhögg þar verið mikið í gegnum tíðina og því eru aurskriður mjög tíðar.
Nánast allar byggingarnar í Tuguegarao, höfuðborg Cagayan eru sagðar hafa orðið fyrir skemmdum.
Hins vegar virðist sem að góður undirbúningur hafi dregið verulega úr mannfalli á svæðinu, samkvæmt BBC.
Þó Mangkhut hafi tapað miklum styrk á leið sinni yfir Filippseyjar er hann enn mjög kraftmikill og er nú á leið til Hong Kong og Kína. Hins vegar virðist sem að óveðrið ætli ekki að sækja í sig veðrið á nýjan leik á leið sinni til Kína, eins og óttast var.
Minnst 25 dánir og ótti um uppskerubrest

Tengdar fréttir

Minnst fjórtán látnir á Filippseyjum
Minnst fjórtán eru dánir eftir að fellibylurinn Mangkhut fór yfir Filippseyjar og olli þar miklum skemmdum.

Mangkhut olli usla í Filippseyjum og er nú á leið til Kína
Minnst tveir eru dánir eftir að fellibylurinn Mangkhut fór yfir Filippseyjar.