Viðskipti erlent

Apple kynnti risastóran iPhone, ódýrari iPhone og nýtt úr

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
iPhone Xs og iPhone Xs Max.
iPhone Xs og iPhone Xs Max. Mynd/Apple
Bandaríski tæknirisinn Apple kynnti í dag nýjar vörur til leiks á sérstakri kynningu í höfuðstöðvum félagsins í Kaliforníu. Kynningarinnar var beðið með mikilli eftirvæntingu.

Alls voru þrjár nýjar gerðir af iPhone síma Apple kynntar auk uppfærslu á Apple Watch úri fyrirtækisins, auk ýmissa smáhluta uppfærslna.

Stærsti sími Apple til þessa

Fastlega var gert ráð fyrir að Apple myndi kynna til leiks mun stærri síma en fyrirtækið hefur áður framleitt og reyndist það rétt. Apple kynnti stærri útgáfu af iPhone X sem kynnt var á síðasta ári og mun hún bera nafnið iPhone S MAX. Síminn er með 6,5 tommu skjá, töluvert stærri en iPhone X síminn sem er með 5,8 tommu skjá.

Síminn verður með FaceID kerfi Apple sem kynnt var til leiks á síðasta ári og segir fyrirtækið að kerfið hafi verið uppfært til muna. Þá hefur innvols símans verið uppfært auk myndavélarinnar. Apple kynnti einnig til leiks uppfærslu á iPhone X sem mun bera nafnið iPhone Xs. Er hann svipaður útlits og forverinn með sömu uppfærslum og iPhone S MAX síminn, þó minni en skjárinn á MAX símanum, 5,8 tommur líkt og á iPhone X.

Ódýrari útgáfan

Þá kynnti Apple einnig ódýrari útgáfu af iPhone og nefnist hún iPhone Xr. Síminn líkist iPhone X símanum í útliti. Er hann úr áli, samanborið við stál í hinum símunum sem kynntir voru auk þess að hann skartar LCD skjá en ekki OLED. Þá er hann ekki jafn vatns- og rykvarinn og dýrari týpurnar. Þá er aðeins ein myndavél aftan á símanum, en ekki tvær líkt og á stærri systkinum símans. 

Og svo úrið

Apple kynnti einnig til leiks Apple Watch 4 úrið sem kemur í stað Apple Watch 3. Þar ber helst að nefna að nú nær skjárinn yfir allt yfirborð úrsins. Þá er úrið þynnra en áður auk þess sem að úrið getur numið hjartslátt mun betur en áður.

Þá er úrið útbúið sérstökum fallskynjara sem skynjar hvort að sá sem ber það á sér hafi dottið. Sendir skynjarinn skilaboð á skjáinn og býður notendanum að hringja í neyðarlínuna ef þörf sé á.

Þá tilkynnti Apple einnig að iOS 12, uppfærsla á snjalltækjastýrikerfi Apple verði gefin út 17. september næstkomandi og að macOS Mojave, uppfærsla á tölvustýrikerfi Apple komi út viku síðar, 24. september.

Nánar má lesa um uppfærslur Apple á vefVerge,GizmodoogMacRumours




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×