Viðskipti innlent

H&M Home á Hafnartorgi í október

Stefán Ó. Jónsson skrifar
H&M Home verður opnuð á Hafnartorgi í október.
H&M Home verður opnuð á Hafnartorgi í október.
Sænska fataverslunarkeðjan H&M opnar sína þriðju verslun á Íslandi á Hafnartorgi þann 12. október næstkomandi. H&M verslunin á Hafnartorgi, andspænis Arnarhóli, mun einnig hýsa fyrstu H&M Home á Íslandi, sem sérhæfir sig í hvers kyns heimilismunum.

Í tilkynningu frá H&M segir að verslunin á Hafnartorgi verði á tveimur hæðum. H&M er jafnframt fyrsta verslunin til að opna í verslunarkjarnanum á Hafnartorgi.

H&M mun reka þrjár verslanir á Íslandi þegar verslunin á Hafnartorgi verður opnuð um miðjan október.Fréttablaðið/Andri Marínó
Haft er eftir Dirk Roennefahrt, svæðisstjóra H&M á Íslandi og í Noregi, í tilkynningunni að mikil spenna sé í þeirra röðum fyrir opnuninni. „Síðan við opnuðum fyrstu verslun okkar á Íslandi hafa móttökurnar farið fram úr björtustu vonum og nú bætist H&M Home í flóruna. Við erum virkilega spennt fyrir framtíðinni og öllu því sem koma skal,“ segir Roennefahrt og vísar þar eflaust til þess að H&M seldi vörur fyrir um 2,5 milljarða á fyrsta árinu hér á landi.

Fyrir rekur keðjan tvær verslanir á Íslandi, eina í Kringlunni og hina í Smáralind.

Í verslun H&M á Hafnartorgi verður fáanlegur dömu- og herrafatnaður ásamt barnafatnaði, skóm og aukahlutum auk fyrrnefndra Home-vara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×