Lögmaður sem sérhæfir sig í gallamálum í nýbyggingum telur viðbúið að þessum málum muni fjölga verulega á næstu árum. Staða kaupenda hafi versnað þar sem fyrningarfrestur sé mun styttri í dag en í uppsveiflunni fyrir hrun.
Byggingamarkaðurinn hefur verið í mikilli uppsveiflu á undanförnum árum og sú grein hagkerfisins sem hefur vaxið hvað hraðast samkvæmt greiningu Samtaka Iðnaðarins. Í vor voru rúmlega 4.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og gert er ráð fyrir því að tæplega 7.000 nýjar íbúðir komi inn á markaðinn á næstu misserum. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir lögmaður sem sérhæfir sig í gallamálum segir að uppgangurinn sér svipaður og var á árunum fyrir hrun.
„Við munum það auðvitað öll að í síðasta upphlaupi var töluvert mikið af gallamálum í nýbyggingum. Það var oft rætt um það á milli okkar sem að sérhæfum okkur í gallamálum að það væri sirka 30 % af því sem var byggt þá gallað,” segir Guðfinna Jóhanna lögfræðingur.
Guðfinna segir viðbúið að gallamálum muni fjölga á næstu árum en það taki venjulega um eitt til þrjú ár fyrir galla að koma í ljós.
En er einhver ástæða til þess að óttast að þetta verði í dag jafn slæmt eins og það var á árunum fyrir hrun?
„Það er náttúrulega spurning. Hefur eitthvað breyst á þessum tíma? Það var auðvitað mikið byggt í síðustu uppsveiflu og við erum að byggja ansi hratt núna. Þannig það er í rauninni ekkert svona sem gefur það til kynna að gallamálin verði eitthvað færri núna heldur en var síðast. En það á auðvitað eftir að koma í ljós,” segir Guðfinna.
Guðfinna segir að staða kaupenda sé í raun verri í dag en hún var á árunum fyrir hrun en fyrningarfresturvegna gallamála var styttur úr tíu árum í fjögur ár árið 2007.
„Auðvitað hefur staðan versnað vegna þess að nýbyggingar eiga að vera í lagi og það að breyta fyrningarfrestinum úr tíu árum í fjögur að það hefur auðvitað skert hagsmuni kaupenda á nýbyggingum,” segir Guðfinna.
Innlent