Innlent

Landvernd skorar á fyrrverandi framkvæmdastjóra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. Vísir/vilhelm
Stjórn Landverndar skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að virða niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin felldi á fimmtudag úr gildi starfsleyfi Arctic Fish og Fjarðalax fyrir samtals 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum á Patreksfirði og Tálknafirði.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra lagði í dag fram frumvarp til breytingar á lögum um fiskeldi til að tryggja áframhaldandi starfsemi fyrirtækjanna, þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar.

Í yfirlýsingu frá stjórn Landverndar eru Kristján og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, sem áður var framkvæmdastjóri Landverndar, hvattir til að hverfa af þeirri braut og virða fyrrnefndan úrskurð. Stjórnin telur það „mjög alvarlegt fyrir íslenska stjórnsýslu í umhverfisverndarmálum sem fyrir er mjög veik, að ráðherra skuli hlutast til um úrskurði úrskurðanefndar í umhverfis- og auðlindamálum,“ eins og það er orðað í áskoruninni.

Það sé ákvörðun og áhætta fyrirtækja að hefja starfsemi þrátt fyrir „augljósa galla á henni sem varða við landslög,“ segir stjórn Landverndar, og vísar þar til rökstuðningsins sem leyfissviptingin hvílir á.

„Réttur umhverfisverndarsamtaka til þess að láta reyna á framkvæmda- og starfsleyfi fyrir starfssemi sem hefur skaðlegar afleiðingar fyrir umhverfið fyrir óháðum aðila er lítils virði þegar ráðherrar setja lög á úrskurði þessa óháða aðila. Stjórn Landverndar skorar á Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Umhverfis- og auðlindaráðherra að virða niðurstöðu úrskurðanefndarinnar og láta af áætlunum um lagasetningar sem snúa úrskurði hennar,“ segir ennfremur í áskoruninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×