Sport

Brees komst í sögubækurnar í öruggum sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Drew Brees fagnar eftir að hann bætti metið sitt í nótt.
Drew Brees fagnar eftir að hann bætti metið sitt í nótt. Vísir/Getty
Drew Brees hefur átt magnaðan feril og hann undirstrikaði það í nótt þegar hann bætti sendingamet Peyton Manning í NFL-deildinni, er lið hans New Orleans Saints vann öruggan sigur á Washington Redskins, 43-19.

Gamla sendingamet Manning var 71.940 jardar og bætti Brees það í nótt þegar hann gaf 62 jarda sendingu á Tre'Quan Smith fyrir snertimarki í öðrum leihkluta. Viðbrögðin stóðu ekki á sér - Brees umsvifalaust umkringdur liðsfélögum sínum og honum fagnað vel og innilega.

Brees er 39 ára og á átján ára feril að baki í deildinni. Miðað við frammistöðuna í nótt á hann nóg eftir en hún var ein sú besta á ferlinum. Hann kláraði 26 sendingar í 29 tilraunum sem þýðir að hlutfall heppnaðra sendinga var 89,3 prósent. Það er persónulegt met hjá Brees. Hann gaf þrjár snertimarkssendingar í leiknum.

„Þetta fór betur en ég gat ímyndað mér,“ sagði Brees í viðtölum eftir leikinn í nótt og þakkaði hann mömmu sinni og afa, sem eru bæði látin, fyrir þá óbilandi trú sem þau höfðu alla tíð á honum.

Leikurinn var stöðvaður eftir að Brees bætti metið. Hann fagnaði með liðsfélögum sínum og þakkaði áhorfendum fyrir stuðninginn. Peyton Manning sendi honum líka skilaboð, í gegnum Twitter-síðu Denver Broncos, en það var stutt í húmorinn í myndbandinu sem má sjá hér fyrir neðan.







Sem fyrr segir var sigur Dýrlinganna í nótt afar öruggur. Heimamenn leiddu í hálfleik, 26-13, og skoruðu svo tvö snertimörk í þriðja leikhluta án þess að gestirnir frá Washington næðu að svara fyrir sig.

Hlauprinn Mark Ingram spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu fyrir Saints eftir að hafa tekið út fjögurra leikja bann fyrir notkun ólöglegra lyfja. Ingram átti stórleik - skoraði tvö snertimörk og hljóp með boltann 53 jarda þar að auki. Áðurnefndur Smith, sem er nýliði, greip boltann aðeins þrisvar í leiknum. En hann skoraði tvö snertimörk og var samtals með 111 jarda.

Þetta var fjórði sigur Saints í fimm leikjum og er liðið í efsta sæti suðurriðils Þjóðardeilarinnar. Washington hefur nú unnið tvo leiki og tapað tveimur en er þrátt fyrir það í efsta sæti austurriðli deildarinnar.

Samantekt úr leiknum má finna á Youtube-síðu NFL-deildarinnar.







NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×