Bandaríski netverslunarrisinn Amazon hefur ákveðið hækka laun hundruð þúsunda starfsmanna sinna á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum.
Eftir breytingarnar verður lágmarkstímakaup starfsmanna Amazon í Bandaríkunum 15 dalir á klukkustund, rúmlega 1600 krónur á tímann. Í Bretlandi verður tímakaupið hjá starfsmönnum fyrirtækisins í Lundúnum hækkað í 10,5 pund - rúmar 1500 krónur. Utan Lundúna verður lágmarkskaup Amazon-starfsmanna tæpar 1400 krónur.
Áætlað er að launahækkunin muni ná til 250 þúsund starfsmanna í Bandaríkjunum, 17 þúsund starfsmanna í Bretlandi auk tugþúsunda annarra, sem ekki eru fastráðnir.
Talið er að rekja megi launhækkun fyrirtækisins til aðgerða starfsmanna Amazon, jafnt í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þúsundir starfsmanna hafa lagt niður störf á síðustu mánuðum, til að mynda í Þýskalandi, Portúgal og á Spáni.
Margir af stærstu keppinautum Amazon, eins og verslunarkeðjurnar Walmart og Target, hafa hækkað lægstu laun á síðustu misserum. Greinendur rekja hækkanirnar ekki aðeins til baráttu starfsfólks og verkalýðsfélaga, heldur einnig lækkandi atvinnuleysis í Bandaríkjunum. Fyrirtæki þurfi nú í auknum mæli að berjast um starfsfólk, sem þau reyni að lokka til sín með hærri launum.
Amazon er eitt stærsta fyrirtæki heims og er það metið á næstum eina billjón (e. trillion) bandaríkjadala. Engu að síður hefur Amazon verið harðlega gagnrýnt, til að mynda af Donald Trump Bandaríkjaforseta, vegna þeirra skatta sem fyrirtækið greiðir - sem gangrýnendum þykja í lægri kantinum. Þar að auki hafa reglulega borist fréttir af óæskilegu starfsumhverfi í verksmiðjum Amazon vestanhafs.
Stofnandi fyrirtækisins, Jeff Bezos, er jafnframt ríkasti maður heims. Auður hans er talinn nema 150 milljörðum dala, 16.800 milljörðum króna.
