Blandað lið Íslands í unglingaflokki lenti í fjórða sæti í úrslitum á EM í hópfimleikum í dag.
Liðið var fyrst út á gólfið í gólfæfingar. Þær heppnuðust þokkalega en þó var einkunnin lægri en í undankeppninni.
Æfingar á dýnu gengu frábærlega og negldi liðið nær allar lendingar sínar. Það gekk hins vegar ekki eins vel á trampólíni þar sem komu nokkur föll.
Baráttan um gullið var á milli Svía og Dana en svo fór að Danir höfðu betur. Norðmenn tóku bronsið.
Upphaflega var Ísland í 4.-5. sæti, jafnt Bretum að stigum. Bretar kærðu hins vegar danseinkunn sína og í stað þess að hækka einkunnina þá lækkaði hún og Íslendingar fá fjórða sætið.
Einkunnir Íslands:
Gólf 15,900
Dýna 16,100
Trampólín 15,000
Uppfært klukkan 17:52: Fréttin var uppfærð eftir kæru Breta.
Fjórða sætið niðurstaðan hjá unglingaliðinu
