Innlent

Plataði starfsmann Arion banka upp úr skónum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsmaður Arion banka millifærði hálfa milljón yfir á reikning mannsins, tvo daga í röð.
Starfsmaður Arion banka millifærði hálfa milljón yfir á reikning mannsins, tvo daga í röð. Vísir/Vilhelm
Karlmaður með nokkurn sakaferil að baki hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot, þjófnað og fjársvik. Maðurinn játaði skýlaust öll brot sín en innan við ár er síðan hann hlaut síðast dóm. Hann hefur einkum hlotið dóma fyrir umferða- og fíkniefnalagabrot.

Fjársvik mannsins sneru að því að manninum tókst tvo daga í röð, sumarið 2016, að blekkja starfsmann Arion banka og láta millifæra í tvígang hálfa milljón króna af reikningi annars einstaklings inn á reikning hins dæmda. Þá stal hann fötum úr Útilífi í Smáralind fyrir tæplega 17 þúsund krónur nú í sumar.

Umferðarlagabrotin framdi maðurinn árið 2017. Var hann annars vegar stöðvaður á Reykjanesbraut í Hafnarfirði og hins vegar á Reykjanesbraut við Vífilstaðaveg í Garðabæ. Í bæði skiptin mældist hann undir áhrifum af tetrahýdrókannabílnól og metaamfetamíni.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×