Viðskipti innlent

Ekkert okur hjá H&M

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Frá opnun H&M við Hafnartorg.
Frá opnun H&M við Hafnartorg. Fréttablaðið/Anton Brink
Lítill verðmunur er í flestum tilfellum á nýjum fatnaði í H&M hér á landi og í Noregi samkvæmt athugun Fréttablaðsins. Heldur meiri verðmunur er á milli H&M hér og í Bretlandi en þó ekki nærri því sem Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hélt fram á dögunum. Fullyrti hann að verð í H&M hér á landi væri „yfirleitt um 30 prósentum hærra“ en á hinum Norðurlöndunum og undir þær fullyrðingar tók dósent við Háskóla Íslands.

Fréttablaðið athugaði verð á nokkrum nýjum vörum úr haustlínu herra í verslun H&M í Kringlunni og bar saman við uppgefin verð í fjórum öðrum löndum.

Þegar verð hér er borið saman við í Noregi má sjá að munurinn er óverulegur, eða í kringum fjögur prósent, á tveimur vörum. Mestur er verðmunurinn á þunnri peysu sem kostar hér 2.495 krónur en sem nemur 2.151 krónu í Noregi. Munurinn er 16 prósent eða 344 krónur. Munurinn á sömu peysu hér og í Bretlandi er 24 prósent eða 485 krónur.

Athygli vakti að Chelsea-ökklaskór eru ódýrari hér. Raunar reyndust skórnir ódýrari hér en bæði í Noregi og Danmörku og er verð þeirra nær því sem tíðkast í Bretlandi.

Lítill verðmunur reyndist einnig á H&M hér og í Danmörku og Svíþjóð. Mestur var verðmunurinn á peysunni þunnu milli Íslands og Svíþjóðar eða 26,7 prósent.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×