Skoðun

Þungir fasteignaskattar

Eyþór Arnalds skrifar
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að taka til sín 18,6 milljarða í fasteignaskatta á þessu ári. Það er 6,1 milljarði meira en innheimt var árið 2014. Á einu kjörtímabili hækka skatttekjur borgarinnar af fasteignum fólksins í borginni um heil 38%. Þetta eru miklar hækkanir. Fasteignaskattar leggjast á eignir fólks hvort sem þær gefa af sér tekjur eða ekki. Þeir leggjast jafn þungt á skuldlausa fasteign og fasteign sem er mjög skuldsett. Það má því segja að þetta sé hvorki tekjuskattur né skattur á hreina eign. En hann getur verið verulega íþyngjandi fyrir heimili og fyrirtæki.

Sumir geta ýtt gjaldinu yfir á aðra eins og leigufyrirtæki sem hækkar leigu vegna hækkandi fasteignaskatta. Þannig valda háir fasteignaskattar í Reykjavík hærra leiguverði á íbúðum og atvinnuhúsnæði. Á síðustu fjórum árum hefur verðlag hækkað um 7,5%, en frá 2014 hafa skatttekjur af fasteignum hækkað fimm sinnum meira. Það er einfaldlega of mikið.

Sjálfstæðisflokkurinn vill leiðrétta þá miklu skekkju sem orðin er í skattheimtunni. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði er í hámarki í borginni þó mörg nágrannasveitarfélögin hafi lækkað sína skattprósentu. Þá liggur fyrir að fasteignamat mun hækka langt umfram spár á næsta ári og gera þetta enn þyngra. Það er því kominn tími á að leiðrétta samkeppnisstöðu fyrirtækja í borginni og stíga fyrsta skrefið í að lækka álögurnar. Hóflegt fyrsta skref er að lækka skattprósentuna úr 1,65% í 1,6%. Það leggjum við til núna í borgarstjórn. Þetta er mikilvægt skref að stíga, enda töluðu margir frambjóðendur í þessa veru fyrir kosningar.

Verslun í Reykjavík stendur í samkeppni við stórfyrirtæki á netinu og verslun í Garðabæ og Kópavogi. Reykjavík þarf að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í borginni í stað þess að missa þau eða hrekja þau burt. Þess ber að geta að höfuðborgin nýtur þess forskots að flestar stóru stofnanir ríkisins eru í borginni og borga henni fasteignaskatt eins og lög gera ráð fyrir. Einmitt þess vegna á borgin að vera í góðum færum til að leiðrétta oftekna skatta á atvinnulífið og sýna lit. Ekki bara í orði, eða með kosningaloforði. Heldur í verki núna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×