Innlent

Klónið gæti hagað sér ólíkt Sámi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Klónað gæludýr er eins og eineggja tvíburi upprunalega eintaksins en samspil erfða og umhverfis leiðir til þess að persónuleikinn getur verið gjörólíkur, að sögn forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Fyrsti íslenski hundurinn verður líklega klónaður innan tíðar en slíkt kostar um sex milljónir króna.

Hundurinn Sámur, sem er í eigu fyrrverandi forsetahjónanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaief, verður mögulega fyrsti klónaði íslenski hundurinn. Ólafur greindi frá því um helgina að sýni hefðu verið tekin úr Sámi og send til rannsóknarstofu í Texas. Samkvæmt verðskrá kostar 50 þúsund Bandaríkjadali, eða 6 milljónir króna, að klóna hund hjá Viagen Pets í Texas.

Forstjóri Íslenskrar erfðagreininar segir klón í rauninni vera eineggja tvíbura. Samspil erfða og umhverfis geti þó leitt til ólíkra einstaklinga þar sem klónið kemur til á öðrum tíma.

„Þá ertu að búa til erfðaeintak sem elst upp við annars konar kringumstæður. Þannig að ég held að Dorrit ætti ekkert að verða hissa þó að klónið af Sámi bíti hana. Þar sem klónið af Sámi gæti komið til með að haga sér svolítið öðruvísi," segir Kári Stefánsson.

Dorrit og Sámur árið 2012.Fréttablaðið/Stefán
Hann segir erfitt að nálgast upplýsingar um áreiðanleika tækninnar og tölfræði um slys við ræktunina. „Hversu stór hluti þessara tilrauna leiðir til þess að það fæðist vanskaplingur, ég veit það ekki, en er viss um að það er ekki mikið undir 10%," segir Kári.

Frá því að kindin Dolly var klónuð fyrst dýra árið 1996 hafa um tuttugu tegundir verið klónaðar og þótti það sæta tíðindum þegar apar voru klónaðir í fyrsta sinn í janúar vegna skyldleika þeirra við menn. Kári telur ekki nokkurn vafa leika á því að tæknilega sé hægt að klóna manneskju. 

„Mér finnst þetta, þegar kemur að gæludýrum, vera að mestu leyti tækni til þess að dekra við sjálfa sig ef menn eru í þeirri efnahagslegu aðstöðu að geta það. Þegar kemur að því að klóna fólk erum við komin inn á miklu flóknara sprengjusvæði þegar kemur að viðkvæmum álitaefnum, og það eitthvað sem ég vona að menn geri ekki," segir Kári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×