KSÍ hefur opnað fyrir umsóknir vegna starfs yfirmanns knattspyrnumála hjá sambandinu. Eftir því hefur verið beðið í talsverðan tíma.
Starfið er kallað „Yfirmaður knattspyrnumála/Yfirmaður knattspyrnusviðs“. Umsóknarfrestur er til 15. nóvember.
Þegar Guðni Bergsson var kjörinn formaður KSÍ boðaði hann komu yfirmanns knattspyrnumála. Hann sagði svo í viðtali þann 27. nóvember á síðasta ári að staðan yrði auglýst á þessu ári. Nú ellefu mánuðum síðar hefur staðan verið auglýst.
Í viðtali við Vísi þann 2. október síðastliðinn staðfesti Guðni að mönnuð yrði staða sem hingað til hefði verið kölluð yfirmaður knattspyrnumála.
„Við erum að fara í gegnum þessar skipulagsbreytingar og þá sjáum við hvernig ráðningum verður hagað. Ég veit að menn bíða með óþreyju eftir þessu en þetta fer að koma í ljós, sama hvað þessi tiltekna staða mun heita og svo framvegis. Það eru skipulagsbreytingar fram undan og það verður mönnuð staða í þá veru sem hingað til hefur verið kölluð yfirmaður knattspyrnumála,“ sagði Guðni í byrjun mánaðarins en nú hefur komið í ljós að staðan heitir yfirmaður knattspyrnumála eftir allt saman.
Hér má lesa auglýsingu KSÍ um starfið.

