Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, segir að til lengdar geti ekkert atvinnulíf staðið undir viðlíka launahækkunum og sést hafa undanfarin ár. Finnur Oddsson, forstjóri Origo, segir að það verði „áframhaldandi verkefni á næstunni“ að leita leiða til hagræðingar.
Seðlabanki Íslands tekur fram í nýju riti um fjármálastöðugleika að „óljóst“ sé hversu mikið svigrúm fyrirtæki hafi til hagræðingar til þess að mæta launahækkunum.
„Hagnaður fyrirtækja hefur vaxið á síðustu árum en verulega hefur hægt á vextinum og vísbendingar eru um að draga muni úr hagnaði þeirra á árinu. Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins eru almennt svartsýnni nú en þeir hafa verið undanfarin ár og fleiri en áður búast við því að hagnaður verði minni í ár en í fyrra,“ segir jafnframt í riti Seðlabankans.
Launakostnaður í atvinnulífinu hefur hækkað skarpt á undanförnum árum en samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands námu launahækkanir 26,8 prósentum frá júlí 2015 til júlí 2018. Á sama tímabili hækkaði raungengi á mælikvarða launa um meira en 50 prósent sem þýðir að launakostnaður á Íslandi hækkaði um meira en 50 prósent umfram launakostnað keppinauta erlendis.

Ólík launaþróun erlendis
Ari segir að frá því í maí 2015 og fram í júlí 2018 hafi vegið meðaltal samningsbundinna launahækkana hjá Mjólkursamsölunni numið yfir 40 prósentum. „Ég held að það þurfi ekki að hafa mörg orð um að ekkert atvinnulíf stendur undir slíkri þróun til lengdar.
Og það er alveg ljóst að þessi þróun er í engu samræmi við það sem tíðkast í löndunum í kringum okkar,“ nefnir hann og bendir meðal annars á að raungengi krónunnar hafi hækkað verulega undanfarin ár sem skaði samkeppnisstöðu fyrirtækja.
Finnur bendir á að hjá Origo hafi heildarkostnaður vegna launa og tengdra gjalda aukist umtalsvert á undanförnum árum í takti við kjarasamningsbundnar hækkanir og almenna launaþróun.
„Eðlilega hefur þessi kostnaðarauki mikil áhrif á okkar rekstur og hefur afkoma undanfarna fjórðunga verið undir væntingum. Við höfum því leitað leiða til að hagræða í okkar rekstri, meðal annars í launakostnaði, og er ljóst að það verður áframhaldandi verkefni okkar á næstunni,“ nefnir Finnur.

Hann segist binda vonir við að deilendur setjist saman og fari betur yfir þau gögn sem liggja fyrir. „Maður trúir ekki öðru en að kjarasamningar verði byggðir á einhverjum forsendum þar sem menn fara yfir tölur og bera saman bækur sínar. Það hlýtur að vera mikið eftir af þeirri vinnu miðað við hvað mikið ber í milli í orðræðunni,“ segir Ari.
Hann segir ekki síður mikilvægt við þessar aðstæður – þar sem boginn hafi verið spenntur til hins ítrasta – að stjórnvöld líti til þess hvað þau geti gert til þess að laga starfsumhverfi atvinnulífsins til þess að auðvelda fyrirtækjum að standa undir kostnaðarhækkunum.
„Þegar pressan er svona mikil er aldrei mikilvægara að fyrirtæki fái að hagræða og að ekki séu lagðar á atvinnugreinar frekari íþyngjandi byrðar nema brýna nauðsyn beri til. Krónurnar koma úr sama vasa að þessu leytinu til.
Kröfur sem auka kostnað í rekstri fyrirtækja, hverju nafni sem þær nefnast, draga úr getu fyrirtækja til þess að standa undir hækkandi launakostnaði.“