Innlent

„Það er gott að búa á landsbyggðinni en til þess þurfum við þak yfir höfuðið“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steinunn Steinþórsdóttir í pontu á Húsnæðisþingi á Hilton Reykjavík Nordica í dag.
Steinunn Steinþórsdóttir í pontu á Húsnæðisþingi á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Vísir/vilhelm
Steinunn Steinþórsdóttir, ung kona sem uppalin er á höfuðborgarsvæðinu en er nú búsett á Egilsstöðum, kallaði eftir aðgerðum í húsnæðismálum ungs fólks á landsbyggðinni í erindi sínu á Húsnæðisþingi í dag. Hún sagði mikilvægt að byggðar yrðu minni íbúðir, sem henti þörfum ungs fólks.

Steinunn er kennari á Egilsstöðum og hefur einnig starfað með félagasamtökunum Ungt Austurland, sem vilja m.a. gera landshlutann að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólki. Erindi Steinunnar á þinginu í dag bar titilinn „Að búa utan suðvesturhornsins“.

Kostur að hafa ekkert H&M

Steinunn hefur búið á Egilsstöðum síðastliðin tvö ár en er uppalin í Garðabæ. Hún sagði þörfina til að prófa eitthvað nýtt hafa orðið til þess að hún flutti út á land, auk þess sem hana langaði að losna við stressið sem fylgir umferðinni í höfuðborginni.

Steinunn sagði Egilsstaði góðan búsetukost fyrir ungt fólk og að þar sé frábært að búa. Stutt sé í alla þjónustu, enginn eyði tíma sínum í umferðarteppum til og frá vinnu og þá séu freistingar færri, með tilheyrandi peningasparnaði.

„Það er ekki kaffihús á hverju strái, H&M er ekki með útibú, og ég tala nú ekki um að komast ekki í búð á ókristilegum tíma þar sem allar verslanir loka klukkan sjö.“

 

Ekki hagkvæmt að öll þjóðin hrúgist á höfuðborgarsvæðið

Staðreyndin sé hins vegar sú að á Egilsstöðum vanti húsnæði til leigu og kaupa, sérstaklega fyrir ungt fólk. Steinunn sagði að húsin sem stæðu fólki til boða væru mörg gömul og í slæmu ásigkomulagi, og nýbyggingar væru nær allar í kringum 200 fermetrar. Þannig sé ekki verið að svara þörfum unga fólksins.

„Það er nánast óásættanlegt því það vantar fólk til starfa hjá mörgum fyrirtækjum.“

Þá sé einnig fátt um fína drætti ef fólk hyggst stækka við sig, og sagði Steinunn það eina ástæðuna fyrir því að læknar og annað heilbrigðisfólk haldist ekki í starfi úti á landi.

Steinunn benti jafnframt á að ekki væri hagkvæmt að öll þjóðin hrúgist á höfuðborgarsvæðið, auk þess sem þangað sé oft erfitt að sækja tækifærin sökum íbúðaverðs. Hún kallaði eftir því að íbúðarhúsnæði yrði byggt í auknum mæli á landsbyggðinni, og þá sérstaklega íbúðir í hóflegri stærð sem henti ungu fólki.

„Það er gott að búa á landsbyggðinni en til þess þurfum við þak yfir höfuðið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×