„Nú eru þau komin í gæsluvarðhald og við erum komin með andrými til að skipuleggja okkur. Morguninn hefur farið í að ná utan um gögn, fara yfir þau og sjá á hvaða stað við erum í þessu. Við erum að afla frekari gagna og ræða við vitni og fá myndir frá fólki og svoleiðis,“ segir Oddur í samtali við Vísi.

Þá hafa húsráðandi að Kirkjuvegi og kona, sem var gestkomandi í húsinu, ekki verið yfirheyrð umfram það sem var í gær. Þau voru handtekin á vettvangi brunans á miðvikudag og úrskurðuð í gæsluvarðhald í gærkvöldi.
„Og væntanlega verður ekki tekin skýrsla af þeim fyrir helgi.“
Oddur segir lögreglu enn halda þétt að sér spilunum um framvindu rannsóknarinnar. Ekki verður greint frekar frá því á hverju grunur lögreglu um íkveikju er byggður og þá vildi Oddur ekki tjá sig um það hvort játning lægi fyrir í því samhengi.
Haft er eftir Oddi í Fréttablaðinu í dag að „neyslufélagar“ lýsi best tengslum fólksins í húsinu. Hann segir í samtali við Vísi í morgun að fjórmenningarnir hafi verið „kunningjar og vinir“. Inntur eftir því hvort hin látnu hafi verið trúlofað par segir Oddur að fólkið hafi átt sér sögu.
„Kannski stundum. En akkúrat á þessum tíma, þá var það ekki.“
Tilkynnt var um eldsvoðann að Kirkjuvegi 18 síðdegis á miðvikudag. Rannsókn lögreglu á vettvangi lauk í gær og húsið var í kjölfarið afhent viðeigandi tryggingafélagi. Gert er ráð fyrir að húsið verði rifið, sem gæti reynst erfitt verkefni sökum þess hversu mikið asbest var í því.