Strætó bs. áætlar að þeir rafmagnsstrætisvagnar sem teknir voru í notkun á þessu ári spari fyrirtækinu kaup á um 80 þúsund lítrum af dísilolíu, miðað við meðaleyðslu dísilvagns. Níu rafmagnsknúnir vagnar eru nú í notkun en alls hafa verið fest kaup á fjórtán.
Samkvæmt upplýsingum frá Strætó hefur reynslan af rafvögnunum verið góð síðan fjórir þeirra voru teknir í notkun í byrjun apríl og fimm til viðbótar í ágúst síðastliðnum. Engin vandamál hafi komið upp. Nú er tekið að kólna á höfuðborgarsvæðinu en enn sem komið er hefur ekki reynt á hvernig áhrif snjór og kuldi hafa á drægi eða vagnana almennt.
„Miðað við notkun rafvagna á árinu 2018 er gert ráð fyrir að Strætó spari um 80 þúsund lítra af dísilolíu. Fram til þessa höfum við verið að keyra hvern vagn um 4.000 kílómetra á mánuði en stefnum að því að hverjum vagni verði ekið um 8.000 kílómetra á mánuði á næstu mánuðum og þeir verði þá komnir í fulla nýtingu,“ segir Ástríður Þórðardóttir, sviðsstjóri fjármála og reksturs hjá Strætó bs.
Eins og fram hefur komið hefur afhending á síðustu fimm vögnunum tafist nokkuð og til skoðunar er að innheimta tafabætur frá kínverskum framleiðanda vagnanna. Það skýrist þó á næstu vikum.
Ástríður segir að gert sé ráð fyrir að allir fjórtán vagnarnir verði komnir í fulla notkun í ársbyrjun 2019.
„Og að þeir geti sparað Strætó allt að 500 þúsund dísilolíulítra á ári, miðað við meðaleyðslu dísilvagns.“
Rafvagnar spara Strætó 80 þúsund dísillítra í ár
Sigurður Mikael Jónsson skrifar
