Erlent

Bandaríkjamenn sagðir hafa undirbúið ákæru gegn Assange

Samúel Karl Ólason skrifar
Julian Assange.
Julian Assange. AP/Frank Augstein

Saksóknarar hafa undirbúið ákæru gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Mögulegt er að hann hafi þegar verið ákærður en að leynd hvíli yfir ákærunni ef og þar til hann verður handtekinn, svo Bandaríkin geti reynt að fá hann framseldan.



Nafn Assange birtist í dómskjölum frá því í ágúst, sem uppgötvuðust aðeins í gær, þar sem saksóknari var að reyna að fá dómara til að innsigla dómsskjöl í máli manns sem var sakaður um kynferðisbrot gegn barni. Svo virðist sem að um mistök hafi verið að ræða. Saksóknarinn í málinu er sá sami og hefur verið með Assange til rannsóknar.



Í dómsskjölunum sem um ræðir stóð að ákærurnar og handtökuskipun „yrðu að vera innsiglaðar þar til Assange verður handtekinn í tengslum við ákærurnar og hann gæti þar af leiðandi ekki lengur forðast handtöku og framsal“.



Á öðrum stað stóð að vegna aðstæðna Assange og hver hann væri þyrftu skjölin að vera innsigluð svo það yrði ekki opinbert að hann hefði verið ákærður.



Samkvæmt AP fréttaveitunni er ekki ljóst af hverju nafn Assange var í skjölunum. Joshua Stueve, talsmaður alríkissaksóknara í Virginíu, sem hafa verið að rannsaka Assange, segir að um mistök hafi verið að ræða. Nafn Assange hefði ekki átt að vera í þessum skjölum.



Washington Post hefur heimildir fyrir því að Assange hafi verið ákærður og ákæran hafi verið innsigluð. AP gat þó ekki staðfest það.



Assange heldur til í sendiráði Ekvador og hefur gert það í rúm sex ár. Hann flúði þangað vegna ákæru um nauðgun í Svíþjóð. Það mál hefur verið fellt niður en hann á þó enn handtöku yfir höfði sér í Bretlandi fyrir að hafa ekki mætt fyrir dómara. Assange óttast að vera framseldur til Bandaríkjanna verði hann handtekinn.



Ný ríkisstjórn hefur um nokkuð skeið reynt að koma Assange úr sendiráðinu.



Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrra að Bandaríkin ætluðu sér að handsama Assange og þar að auki hefur Robert Mueller verið að rannsaka Assange vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.


Tengdar fréttir

Ætluðu sér að flytja Assange frá London um jóllin

Rússneskir erindrekar funduðu með bandamönnum Julian Assange, stofnanda Wikileaks, í London í fyrra um hvort og þá hvernig hægt væri að hjálpa honum að flýja frá Bretlandi á jóladag.

Assange höfðar mál gegn Ekvador

Julian Assange, stofnandi og fyrrverandi ritstjóri Wikileaks, er að höfða mál gegn ríkisstjórn Ekvador, sem hann sakar um að brjóta á mannréttindum sínum og frelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×