Körfubolti

Finnur í hóp hjá KR í kvöld á móti gömlu félögunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Atli Magnússon.
Finnur Atli Magnússon. Vísir/Bára
KR-ingar kynna nýjan leikmann í hverjum leik þessa dagana í Domino´s deild karla í körfubolta en Finnur Atli Magnússon verður í hóp hjá KR í kvöld.

Pavel Ermolinskij spilaði sinn fyrsta leik í síðustu umferð, það er frumsýning hjá Finn Atla í kvöld og þá spilar Kristófer Acox væntanlega sinn fyrsta leik á móti Grindavík í næstu viku.

Finnur Atli staðfesti við Íþróttadeild Vísis og Stöðvar tvö í hádeginu að hann verði í tólf manna hóp hjá KR í kvöld. Finnur mætir þar sínum gömlu félögum í Haukum.

Finnur er 33 ára og 206 sm miðherji sem ætti að styrkja KR-liðið í baráttunni undir körfunni. Finnur er uppalinn KR-ingur en spilað með Haukum síðustu ár. Hann elti konu sína Helenu Sverrisdóttur til Ungverjalands í vetur en þau eru nú bæði komin heim.

Finnur Atli var með 9,1 stig og 7,1 frákast að meðaltali með Haukum í fyrra en liðið varð þá deildarmeistari en datt svo út á móti verðandi Íslandsmeisturum KR í úrslitakeppninni.

Finnur spilaði síðast með KR-liðinu veturinn 2014-15 og varð þá Íslandmeistari með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×