Erlent

Segja Manafort hafa hitt Assange á leynifundum í London

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Paul Manafort er sagður hafa átt leynifundi í London með Julian Assange.
Paul Manafort er sagður hafa átt leynifundi í London með Julian Assange. vísir/epa

Breska blaðið Guardian greinir frá því í dag, og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump, Bandaríkjaforseta, hafi átt að minnsta kosti þrjá leynifundi með Julian Assange, stofnanda Wikileaks, í sendiráði Ekvador í London þar sem Assange hefur dvalið undanfarin ár.



Segir í frétt Guardian að fundirnir hafi farið fram árið 2013, 2015 og vorið 2016 en á þeim tíma var hann orðinn lykilmaður í kosningabaráttu Trump í forsetakosningunum.



Eftir að frétt Guardian birtist tísti Wikileaks og höfnuðu fréttaflutningnum með öllu.  



„Þið skuluð muna þennan dag þar sem Guardian leyfir lygara algjörlega að eyðileggja orðspor blaðsins. Wikileaks er til í að setja milljón dollara á það að Manafort hitti aldrei Assange,“ segir meðal annars í tístinu.

Samkvæmt frétt Guardian er óljóst hvers vegna Manafort hitti Assange og hvað þeir eiga að hafa rætt. Þó má telja líklegt að síðasti meinti fundur þeirra, í mars 2016, muni fanga athygli Robert Mueller, saksóknara Rússarannsóknarinnar svokölluðu, en nokkrum mánuðum síðar láku Wikileaks skjölum frá Demókrötum sem hafði verið stolið af rússneskum njósnurum.



Manafort hefur neitað að hafa haft eitthvað með þá tölvuárás að gera en lögfræðingar hans neituðu að svara spurningum um meinta fundi hans með Assange.



Fyrr á þessu ári var Manafort dæmdur í fangelsi fyrir peningaþvætti og störf hans fyrir erlendar ríkisstjórnir. Samþykkti hann að starfa með rannsakendum Mueller fyrir vægari dóm.



Í gær greindi Mueller hins vegar frá því að Manafort hefði ítrekað logið að rannsakendum og hefði því brotið gegn samkomulagi sínu við saksóknara frá því í september. Hann gæti því átt von á lengri fangelsisdómi og jafnvel fleiri ákærum.


Tengdar fréttir

Manafort samþykkir að veita Mueller upplýsingar

Paul Manafort fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur samþykkt að starfa með rannsakendum Mueller í skiptum fyrir vægari dom í máli er varðar peningaþvætti og störf hans fyrir erlendar ríkisstjórnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×