Innlent

Sál­fræðingar kallaðir til vegna deilna í Land­búnaðar­há­skólanum

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.
Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.
Sálfræði- og ráðgjafarþjónusta Jóhanns Inga Gunnarssonar var fengin til að vinna úttekt innan Landbúnaðarháskóla Íslands. Rektor skólans segir að ástæðan sé deilumál innan skólans.

„Þetta var ákveðið deilumál innan skólans en ég get ekki sagt meira, því miður,“ segir Sæmundur Sveinsson, rektor Landbúnaðarháskólans, aðspurður um málið. Samkvæmt vefsíðunni opnirreikningar.is greiddi mennta- og menningarmálaráðuneytið Sálfræðiþjónustu Jóhanns Inga 1.250 þúsund krónur í síðasta mánuði vegna vinnunnar. Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um reikninginn hjá ráðuneytinu og fékk þau svör að hann tengdist starfsmannamálum Landbúnaðarháskóla Íslands.

Rektor skólans segir sálfræðingana hafa skilað af sér skýrslu en að efni hennar sé bundið slíkum trúnaði með vísan í nýju persónuverndarlögin að hann þori ekki að segja meira um það. Ráðuneytið muni síðan birta honum niðurstöður í málinu sem séu opinberar.

„En þessi skýrsla sem þessi þjónusta vann fyrir okkur, ég þori ekki að segja neitt um hana,“ segir Sæmundur.

Fyrir ári fjallaði Stundin um átök innan skólans milli rektors og þáverandi prófessors sem gagnrýnt hafði samstarfsfólk sitt. Engar upplýsingar er þó að fá um hvort úttektin nú tengist því þar sem bæði stjórnendur og starfsfólk þegja þunnu hljóði um heimsókn sálfræðinganna að sunnan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×