Viðskipti erlent

Facebook stríðir notendum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessi kaldranalegu skilaboð tóku á móti mörgum sem vildu skrá sig inn á Facebook eftir hádegi í dag.
Þessi kaldranalegu skilaboð tóku á móti mörgum sem vildu skrá sig inn á Facebook eftir hádegi í dag.
Notendur Facebook um víða veröld hafa kvartað undan hægagangi á samfélagsmiðlinum eftir hádegi í dag - og hafa sumir hreinlega ekki getað skráð sig inn. Notendur Instagram kvörtuðu einnig undan hægagangi, en myndefnismiðillinn er í eigu Facebook.

Ætla má að rekja megi truflunina til uppfærslu sem Facebook greindi notendum sínum frá þegar þeir reyndu að skrá sig inn á samfélagsmiðilinn skömmu eftir hádegi í dag.

Tæknideild Facebook virðist þó hafa átt í vandræðum með að keyra uppfærsluna í gegn. Þegar notendur reyndu að endurhlaða lendingarsíðuna eftir að hafa fengið uppfærsluskilaboðin tók villumelding á móti þeim. „Afsakið, eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis. Við reynum að leysa úr þessu eins fljótt og auðið er.“

Ef marka á vefsíðuna Downdetector, sem segist halda utan um tilkynningar sem berast um hvers kyns virknivandamál á Facebook, þá er hrun samfélagsmiðilsins svo sannarlega ekki bundið við Ísland.

Notendur um allan heim; til að mynda í Bandaríkjunum, á meginlandi Evrópu, Brasilíu, Indlandi og Ástralíu, hafa fundið fyrir hvers kyns truflunum. Flestir kvarta undan því að síðan hafi hreinlega ekki opnast á meðan margir áttu í erfiðleikum með að skrá sig inn.

Facebook virðist þó vera að rétta aftur út kútnum þegar þetta er skrifað á þriðja tímanum. Þó eru ýmis eiginleikar Facebook ennþá í lamasessi. Má þar nefna að myndir notenda, sem alla jafna má sjá við nöfn þeirra í spjallforritshluta miðilsins, eru hvergi sjáanlegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×