Í tilkynningu Félags sérkennara segir að þetta sé ekki rétt. Hið rétta sé að á árunum 2011 og 2012 átti Anna Kolbrún sæti í ritstjórn blaðsins ásamt fjórum öðrum, en ritstjóri þau ár var Hermína Gunnþórsdóttir. Skorar félagið á Önnu Kolbrúnu að leiðrétta ferilskrá sína í takt við það sem rétt er.

Því var breytt í gær en Þroskaþjálfafélag Íslands hefur tilkynnt notkun Önnu á starfsheitinu til landlæknis en starfsheitið er lögverndað og hefur Anna hvorki hlotið menntun né fengið starfsleyfi sem þroskaþjálfi frá landlækni.
Anna Kolbrún er ein þeirra sex þingmanna sem sátu á Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn og ræddu á óviðeigandi hátt um ýmsa samþingmenn sína og aðra sem komið hafa nálægt stjórnmálum undanfarin ár.
Anna Kolbrún situr enn á þingi og er starfandi þingflokksformaður Miðflokksins en hún hefur sagt að hún sé að íhuga stöðu sína sem þingmaður vegna Klaustursmálsins.
Hefur ekki svarað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir
Tveir þingmenn Miðflokksins sem einnig voru á barnum umrætt kvöld, þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, eru farnir í leyfi frá þingstörfum.Auk þeirra var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, einnig á Klaustur sem og þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, þáverandi þingmenn Flokks fólksins.
Sigmundur Davíð hefur sagt að hann ætli ekki að segja af sér vegna málsins en þeir Ólafur og Karl Gauti hafa verið reknir úr Flokki fólksins. Þeir ætla að sitja áfram á þingi sem óháðir þingmenn.
Vísir hefur ekki náð tali af Önnu Kolbrúnu í morgun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Uppfært klukkan 13:34
Anna Kolbrún hefur uppfært æviágrip sitt aftur á vef Alþingis. Þar segir nú að hún hafi setið í ritstjórn Glæða, fagtímarits sérkennara.