Formenn þingflokkanna hittust á fundi í Alþingishúsinu klukkan 10:30. Anna Kolbrún Árnadóttir mætti á fundinn fyrir hönd Miðflokksins og Inga Sæland fyrir hönd Flokks fólksins.
Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingflokksformaður Flokks fólksins, var rekinn úr flokknum fyrir helgi eftir Klausturupptökurnar. Hann sendi skrifstofu Alþingis bréf í morgun og tilkynnti að hann ætlaði að starfa á þingi sem óháður þingmaður. Sömu sögu er að segja um Karl Gauta Hjaltason.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, mætti fyrir hönd Fólks flokksins á fundinn.
Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins er kominn í ótilgreint launalaust leyfi líkt og Bergþór Ólason, þingmaður flokksins. Áttu þeir Bergþór og Gunnar Bragi mörg ummæli á Klaustursupptökunum um kollega sína í stjórnmálum.
Anna Kolbrún Árnadóttir mætti á þingflokksformannafundinn fyrir hönd Miðflokksins. Mun hún vera starfandi þingflokksformaður á meðan Gunnar Bragi er í leyfi.
Forsætisnefnd fundar klukkan 11:30 þar sem Klaustursupptökurnar verða til umræðu. Þá er þingfundur fyrirhugaður klukkan 15 en fylgst verður með honum hér á Vísi. Forseti Alþingis hefur boðað að koma inn á málið við upphaf þingfundar.
Fréttin var uppfærð eftir að upplýsingar bárust að Anna Kolbrún Árnadóttir hefði mætt fyrir hönd Miðflokksins á fundinn eftir að hann hófst.
